Vill búa með Begum í Hollandi

Shamima Begum, breskur ríkisborgari sem gekk til liðs við Ríki …
Shamima Begum, breskur ríkisborgari sem gekk til liðs við Ríki íslams, hefur verið svipt ríkisborgararétti sínum. Eiginmaður hennar vill búa með henni í Hollandi. AFP

Hollenskur eiginmaður Shamima Begum, breskrar konu, sem gekk til liðs við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams í Sýrlandi, vill búa með henni í Hollandi að því er fram kemur í umfjöllun BBC sem hafði uppi á honum í Sýrlandi. 

Eiginmaðurinn heitir Yago Riedijk og er í haldi Kúrda í norðausturhluta Sýrlands og kvæntist henni nokkrum dögum eftir að hún kom til Sýrlands. Begum var þá fimmtán ára gömul og hann 23 ára.

Begum sem nú nítján ára gömul og dvelur í flóttamannabúðum óskaði þess nýverið að fá að snúa aftur til Bretlands en var svipt ríkisborgararétti sínum af hinu opinbera og er sögð ógn við ríkið. 

Eiginmaður Begum hafnar því að hafa barist með sveitum hryðjuverkasamtakanna og óskar þess nú að snúa aftur til hennar og sonar þeirra, en fyrri tvö börn þeirra létust.

Í fyrstu umfjöllun BBC um málið er Riedijk spurður hvort forsvaranlegt hafi verið að kvænast stúlku á þessum aldri. „Þegar vinur minn sagði mér frá henni og að henni hugnaðist hjónaband sagðist ég ekki hafa áhuga vegna aldurs hennar, en samþykkti að giftast henni engu að síður,“ sagði hann. „Við settumst niður og hún virtist í andlegu jafnvægi. Þetta var hennar val, hún óskaði þess að leitað yrði að maka fyrir sig,“ sagði hann. 

Riedijk sagði að hann hefði verið handsamaður og pyntaður af Ríki íslams eftir að grunsemdir vöknuðu um að hann væri hollenskur njósnari. Hann hafi síðan gefið sig fram við sýrlenskar hersveitir. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert