Ríkar systur græða á ríkislistasafni

Samningurinn sem Fredriksen-systurnar gerðu við ríkislistasafnið er umdeildur í Noregi. …
Samningurinn sem Fredriksen-systurnar gerðu við ríkislistasafnið er umdeildur í Noregi. Þær eru vinstra megin á myndinni og ekki er galið að draga fram hliðstæðu á milli stöðu þeirra í norsku samfélagi og þeirrar sem Kardashian-systur njóta vestanhafs. Morten Qvale / Nasjonalmuseet

Nasjonalmuseet í Ósló, það er þjóðlistasafn Norðmanna, gerði nýverið samning við Fredriksen-systurnar svokölluðu um að geyma og halda utan um listaverkasafn þeirra. Það vakti töluverða athygli í Noregi, enda systurnar frægar dætur ríkasta manns Noregs, John Fredriksen útgerðarjöfurs.

Samningur systranna, sem þegar eiga nokkuð safn af listaverkum, mun felast í að lána safninu verk úr því safni en jafnframt að listfræðingar á vegum safnsins haldi utan um og aðstoði við frekari innkaup í safn systranna.

„Þetta er orðið mikið hitamál hérna í Noregi,“ segir Gunnar B. Kvaran, safnstjóri Astrup Fearnley-listasafnsins í Ósló. Hann býr í Noregi en var áður forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur og hefur komið mjög víða við á þessu sviði. Hann telur nefnda ráðstöfun óæskilega og vísar til að byrja með í orð ritstjóra listatímaritsins Kunstkritikk, um að Fredriksen-systurnar væru „heppnar að vera komnar með ríkislistasafnið í vinnu fyrir sig“.

Gunnar B. Kvaran er safnstjóri í Astrup-Fearnley safninu í Ósló, …
Gunnar B. Kvaran er safnstjóri í Astrup-Fearnley safninu í Ósló, sem er meðal virtustu listasafna í Evrópu. Honum finnst út í hött að systurnar fari í samstarf við ríkislistasafnið. mbl.is/Baldur

Safnararnir græða

„Þessir ríku listsafnarar gera ekki neitt, þeir leggja ekki neitt af mörkum og að vissu leyti eru þeir bara að græða á safninu sem slíku, því geymslan þar staðfestir listrænt gildi verkanna sem þar eru geymd,“ segir Gunnar.

Þannig láni safnarar söfnum verk og verkin verði virtari og verðmætari fyrir vikið en svo þegar þar að kemur koma safnararnir að sækja verkin og safnið stendur eftir tómhent. „Þá er komið gat í safneignina á viðkomandi safni. Og á sama tíma hefur viðkomandi listaverk fengið aukið listrænt gildi, og markaðsvirði oft líka,“ segir Gunnar.

Misskilningur sé að verið sé að auka við safneignina með þessari aðgerð, þetta sé öllu heldur aðeins „tímabundin þæging,“ ekki ósvipað verkjalyfjum eða einhverju slíku.

Hjálpar safneigninni ekki til lengri tíma

„Sum söfnin í Noregi eru mjög vel í stakk búin til alls nema hvað varðar innkaupin,“ segir Gunnar. Þar standi söfnin illa að vígi, meðal annars vegna þess að safnarar, sem eru búnir að kaupa upp dýr verk, vita ekki hvað þeir eiga að gera við þau þannig að þeir bjóði safninu verkin að láni í nokkur ár.

Cecilie Fredriksen er lengst til vinstri og Kathrine Fredriksen lengst …
Cecilie Fredriksen er lengst til vinstri og Kathrine Fredriksen lengst til hægri. Svartklædd við hlið Kathrine er Karin Hindsbo, forstöðumaður Nasjonalmuseet. Morten Qvale / Nasjonalmuseet

Söfnin þiggja verkin að láni en fyrir vikið verður safneignin ekki raunveruleg heldur yfirborðsleg, ef svo má segja. Gunnar sendir söfnurum sem stunda svona lánastarfsemi því þau skilaboð að ef þeir „vilja hafa tengsl við söfnin þá eigi þeir að gefa verkin endanlega eða þá stofna eigin söfn,“ segir hann. Hann vinnur sjálfur á safni sem varð til út frá safni safnara.

„Mjög slæm hugmynd“

Í máli Fredriksen-systranna var þannig búið um hnútana að lánið myndi vara í minnst 10 ár. Samningurinn nær alltént svo langt. Til stendur að setja upp sérstakan sal inni á safninu, sem verður helgaður minningu móður systranna, sem lést fyrir rúmum áratug, og bera nafn hennar.

Ríkislistasafnið eins og það á að líta út að loknum …
Ríkislistasafnið eins og það á að líta út að loknum framkvæmdum 2020. Þá verður opnuð ný stofa innan safnsins þar sem listaverk í eigu Fredriksen-fjölskyldunnar verða til sýnis. Ljósmynd/Nasjonalmuseet

Slíkt segir Gunnar að sé svo að segja óþekkt í Skandinavíu, það er, að sérstakir salir séu inni á söfnum sem heiti eftir þeim sem fjármagnaði gerð þeirra. Það tíðkist í Bandaríkjunum að gera slíkt en hingað til minna á Norðurlöndum.

„Við erum mörg sem álítum að þetta sé mjög slæm hugmynd,“ segir Gunnar en þegar er búið að skrifa undir þennan samning. Hann segir að á þessari stundu sé beðið eftir hugsanlegum viðbrögðum frá menntamálaráðuneytinu við gagnrýninni sem komin er fram.

„Pólitískt séð er á sama tíma hægristjórn hér í Noregi, sem er mjög óvenjulegt. Sú stjórn vill gjarnan sjá þetta fyrir sér sem ákveðið samstarf einkaframtaksins og ríkisstofnana. En þetta er samt í rauninni bara á kostnað ríkisstofnana,“ segir Gunnar, um þetta umdeilda samstarf fjármagnseigenda og ríkislistasafnsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert