„Við erum eins og litlu aparnir þrír“

Emmanuel Macron, forseti Frakklands.
Emmanuel Macron, forseti Frakklands. AFP

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, sagði í gær að herða þyrfti innflytjendalöggjöf landsins. Hverfa þyrfti frá þeirri stefnu að fara mjúkum höndum um innflytjendamálin til þess að koma í veg fyrir að kjósendur styddu öfgaflokka.

Þetta kom fram í ræðu sem Macron flutti í gærkvöldi þar sem hann fór yfir áherslur ríkisstjórnar sinnar vegna síðari hluta kjörtímabils hans. Hætta væri á því að flokkur hans, Lýðveldishreyfingin, yrði álitinn of borgaralegur nema hann tæki á innflytjendamálunum.

„Með áherslum á að við séum mannvinir höfum við stundum verið of lin,“ sagði Macron á fundi með ráðherrum í ríkisstjórn hans og forystumönnum í flokknum. Sagði hann lög Frakklands um hæli vera misnotuð af smyglurum og fólki sem svindlaði á kerfinu.

Telja of marga útlendinga í Frakklandi

Forsetinn sagði ljóst að Lýðveldishreyfingin ætti erfiðara uppdráttar á landsbyggðinni og minni bæjum. Millistéttin ætti ekki í erfiðleikum með innflytjendamálin enda bitnuðu þau ekki á henni. Hins vegar væri aðra sögu að segja um verkafólkið. Vinstriflokkarnir hefðu ekki viljað taka á innflytjendamálunum í áratugi og þess vegna hefði verkafólk farið að kjósa öfgaflokka. „Við erum eins og litlu aparnir þrír, við viljum ekki sjá,“ sagði Macron. Vísaði hann þar til apanna þriggja sem vilja ekki sjá, heyra né segja neitt illt.

Fram kemur í frétt AFP að niðurstöður skoðanakönnunar sem birtar voru í dag sýndu að 63% Frakka teldu of marga útlendinga vera í Frakklandi. Mest andstaða við veru útlendinga í landinu er á meðal verkafólks en 88% þess eru þeirrar skoðunar.

Þá sögðust 66% telja að innflytjendur gerðu ekki nóg til þess að aðlagast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert