Telja gröf Keikós blekkingu

Maðurinn á bak við Súpermann- og Lethal Weapon-myndirnar, leikstjórinn Richard …
Maðurinn á bak við Súpermann- og Lethal Weapon-myndirnar, leikstjórinn Richard Donner, átti eina fjölsóttustu kvikmynd ársins 1993, Free Willy, þar sem Keikó sló eftirminnilega í gegn á hvíta tjaldinu. Ljósmynd/Warner Bros.

Þegar orðrómurinn var orðinn óþægilega hávær í Halsa í Mæri og Raumsdal og kviksögurnar gengu sem aldrei fyrr um þetta 1.580 íbúa samfélag í fyrrasumar hafði Arve Henden bóndi enga eirð í sínum beinum lengur. Hann tók sér því skóflu í hönd, gekk út á landareign sína við sjávarsíðuna og tók að grafa eftir beinum. Þó ekki sínum.

Allar götur síðan útför Íslandsvinarins og háhyrningsins Keikós var gerð á landareign Hendens í skjóli aðfaranætur 15. desember 2003 hefur verið hvíslað um það í sveitinni að útförin hafi verið blekking ein, enda fengu engir aðrir en fulltrúar amerísku stofnunarinnar The Free Willy/Keiko Foundation að vera viðstaddir og einn norskur gröfumaður. Fjölmiðlafólk var sent á hótel og sagt að ekkert yrði af útförinni að sinni og einhver aðgerð drifin af í flýti þessa nótt sem bauð upp á þrumuveður, rigningu og snjókomu.

Myndir hurfu úr bankahólfi

Enginn sá neitt, engin merki voru um nýja gröf, hvað þá sem rúmað hefði átta metra langan skrokk sem vó á fimmta tonn, og myndir sem áttu að hafa verið teknar hurfu á dularfullan hátt úr bankahólfi eftir að stofnunin hafði þverneitað að sýna norska ríkisútvarpinu NRK þær.

Kenningin, samkvæmt flestum sögusögnunum, var að hræ kvikmyndastjörnunnar, sem varð heimsfræg í einu vetfangi gegnum kvikmyndina Free Willy árið 1993, hefði einfaldlega verið dregið á haf út og sprengt þar í tætlur eins og margt hvalshræið sem nauðsyn hefur verið að losna við um dagana.

Margt er breytt síðan í desember 2003, Halsa er til dæmis ekki lengur í Mæri og Raumsdal heldur tilheyrir nú Þrændalögum eftir umdæmabreytinguna 1. janúar 2020.

Keikó svamlar um laug sína í Newport í Oregon 1. …
Keikó svamlar um laug sína í Newport í Oregon 1. desember 1998, skömmu fyrir flutninginn til Vestmannaeyja sem 750 blaðamenn hvaðanæva fylgdust með í Eyjum og varð mesti fjölmiðlaviðburður íslenskur síðan leiðtogafundurinn haustið 1986. Ljósmynd/Wikipedia.org/Ljósmyndari óþekktur

Hvað sem því líður eru þó Henden bóndi og Webjørn S. Espeland, fréttamaður P3-útvarpsstöðvar NRK og þáttarins P3 Dokumentar, sammála um eitt: Þá fýsir að vita hvað varð í raun um hræ háhyrningsins sem líklega var 27 ára gamall þegar hann drapst úr lungnabólgu síðdegis 12. desember 2003, jafngamall mörgum öðrum stjörnum á dánarstundu þeirra, svo sem Jim Morrison, Jimi Hendrix og Janis Joplin.

Vildu að fólk minntist Keikó í lifanda lífi

Henden og Espeland hafa þó ekki rekist á annað en veggi síðan P3 lagðist á árarnar með bóndanum og öðrum íbúum Halsa. Enginn þeirra, sem viðstaddir voru í Halsa aðfaranótt 15. desember 2003, hefur sagt annað en að Íslandsvinurinn frægi, sem Michael Jackson heitinn reyndi að kaupa á sínum tíma en fékk ekki vegna amerískra lagaákvæða, hvíli í gröf í túni Hendens bónda.

Frank Håvik, fulltrúi The Free Willy/Keiko Foundation í Noregi, fullyrðir að hann hafi verið viðstaddur útför háhyrningsins. „Þetta var mjög sérstök nótt, eldingar, snjór og haglél, algjört skítaveður,“ rifjar Håvik upp. „Blaðamennirnir fóru á hótelið eftir að hafa fengið skilaboð frá Sjávarútvegsstofnun sem efaðist um að nokkur jarðarför yrði í þessu veðri. Gröfumaður gróf holu og við drógum Keikó niður í hana. Svo fór að snjóa og þegar blaðamennirnir komu daginn eftir sáu þeir engin ummerki,“ segir Håvik frá.

Margir telja að þið hafið dregið Keiko til hafs og sökkt honum, segir Espeland fréttamaður.

„Já, en ég á myndir af jarðarförinni. Þær hafa legið í bankahólfi í Halsa í mörg ár.“

Gætirðu sent okkur myndirnar?

„Nei. Við urðum sammála um að fólk ætti að minnast Keikós eins og hann var í lifanda lífi frekar en hræs í gröf. Samkomulagið er að myndirnar verði ekki birtar.“

Hver er þín skoðun á þessum sögusögnum?

„Ég ráðlegg efasemdarmönnum að leita með jarðsjá [e. georadar] eða grafa bara. Ég ábyrgist að þeir munu finna beinagrind því ég sá það með eigin augum að hann var settur niður þarna.“

Var ekki mikil lykt á eftir?

„Nei, maður fann kannski dálitla lykt fyrstu dagana en hann var jú greftraður um miðjan vetur,“ svarar Håvik og lætur engan bilbug á sér finna.

Að lokum féllst Håvik með eftirgangsmunum á að sýna Espeland myndirnar með því skilyrði að þær yrðu aldrei opinberaðar en greip þá í tómt í bankahólfinu. Meintar myndir voru horfnar.

Látinn skrifa „Ýmis verkefni“ á reikninginn

Maðurinn sem sat við stjórnvöl gröfunnar nóttina örlagaríku þóttist við eftirgrennslan muna að hvalur hefði verið lagður til hinstu hvílu við sjávarsíðuna þessa nótt. Verkefnið hafi verið svo leynilegt að hann hafi fengið nákvæm fyrirmæli um að skrifa á reikninginn „Ýmis verkefni“ (n. „Div. arbeid“).

Ljósmynd af Facebook-síðunni Keiko The Whale (með fyrirvara um hvort …
Ljósmynd af Facebook-síðunni Keiko The Whale (með fyrirvara um hvort þarna sé raunverulega um hann að ræða). Ljósmynd/Facebook

Henden bóndi og Espeland fréttamaður notuðu sumarið sem leið í að grafa þriggja metra djúpan skurð þar sem Keikó er sagður liggja. Fundu þeir ekki svo mikið sem beinflís né nokkuð annað sem rennt gæti stoðum undir að í túni bóndans lægju jarðneskar leifar átta metra langrar og margra tonna þungrar skepnu.

Síðasti liður rannsóknarblaðamennskunnar var að ræða við steingervingafræðinginn Jørn Hurum um endingu beina í jarðvegi. Hurum var ekki í neinum vafa þar, beinin yrðu að engu á nokkur þúsund árum, ekki 16 árum, svo mikið væri víst.

Espeland og Henden komast ekki lengra þrátt fyrir eljuverk sitt. Hugsanlega verður raunverulegur grafreitur háhyrningsins vinsæla, sem árum saman dvaldist á Íslandi og varð við flutninginn frá Bandaríkjunum til Vestmannaeyja árið 1998 tilefni stærsta fjölmiðlaviðburðar á Íslandi síðan Reagan og Gorbatsjov hittust í Höfða haustið 1986, aldrei öðrum kunnur en fámennum hópi innan vébanda The Free Willy/Keiko Foundation og einum norskum gröfumanni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert