„Fljúgandi furðuhlutir“ í myndböndum Pentagon

Úr einu af myndböndunum þremur.
Úr einu af myndböndunum þremur. AFP

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, Pentagon, hefur gefið út þrjú myndbönd opinberlega sem voru tekin af flugmönnum bandaríska sjóhersins. Virðast þau sýna fljúgandi furðuhluti.

Þessum óskýru svarthvítu myndum hafði áður verið lekið og hafði sjóherinn viðurkennt að þær kæmu frá honum.

Pentagon sagðist hafa ákveðið að senda frá sér myndböndin „til að koma í veg fyrir mögulegan misskilning á meðal almennings um hvort myndböndin sem væru í umferð væru raunveruleg eða hvort einhver önnur saga væri á bak við þau“.

Í yfirlýsingu frá Pentagon kemur fram að ekki hafi enn verið borin kennsl á loftförin sem sjást í myndböndunum. 

Bandaríska varnarmálaráðuneytið, Pentagon.
Bandaríska varnarmálaráðuneytið, Pentagon. AFP

Eitt myndbandanna var tekið upp í nóvember 2004 en hin tvö í janúar 2015. Í öðru þeirra virðist vopnaskynjari beina sjónum sínum að hlut sem er á ferðinni og nokkrum sekúndum síðar eykur hann ferðina og fer úr augsýn.

Í öðru myndbandi sést eitthvað á ferðinni fyrir ofan skýin og veltir annar flugmannanna fyrir sér hvort þetta sé dróni. „Sjáðu þetta,“ segir hann þegar hluturinn fer að snúast.

Dagblaðið The New York Times og To The Stars Academy of Arts and Science, sem Tom DeLonge, fyrrverandi söngvari Blink-182 stofnaði ásamt öðrum, höfðu áður birt myndböndin.

Flugmaður sjóhersins, David Fravor, sem nú er á eftirlaunum og sá annan af „fljúgandi furðuhlutunum“ árið 2004 sagði við CNN að hluturinn hefði hreyfst á ófyrirsjáanlegan hátt. „Þegar ég kom nálægt honum [...] jók hann hraðann hratt í suður og hvarf svo innan tveggja sekúndna,“ sagði hann árið 2017.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert