Þekktur læknir í New York látinn

Starfsfólk sjúkrahúsa í New York hefur tekið á móti gríðarlegum …
Starfsfólk sjúkrahúsa í New York hefur tekið á móti gríðarlegum fjölda sjúklinga undanfarnar vikur og er álagið ólýsanlegt. AFP

Þekktur læknir í New York-borg, sem hefur verið í framvarðasveit borgarinnar í baráttunni við kórónuveiruna, er látinn.

Dr. Lorna Breen, sem var yfirlæknir á gjörgæsludeild New York-Presbyterian Allen-sjúkrahússins á Manhattan framdi sjálfsvíg á sunnudag að sögn lögreglu. Hún var 49 ára gömul. 

AFP

Faðir hennar, dr. Philip Breen, segir í samtali við New York Times að Lorna hafi reynt að sinna starfi sínu og það hafi dregið hana til dauða. Af 56 þúsund dauðsföllum af völdum COVID-19 í Bandaríkjunum hafa 17.500 látist í New York. 

Breen segir að dóttir hans hafi ekki glímt við andleg veikindi áður, en hún var hjá móður sinni og systur er hún lést í Charlottesville í Virginíu. 

Lorna Breen hafði sjálf veikst af kórónuveirunni þar sem hún sinnti starfi sínu í New York en eftir að hafa verið veik heima í á aðra viku sneri hún aftur til vinnu að sögn föður hennar.

Sjúkrahúsið sendi hana heim að nýju og að beiðni fjölskyldunnar kom hún til Charlottesville að sögn föður hennar. Hann segir að í þeirra síðasta samtali hafi hún virst fjarlæg og sagt honum síðan hvernig staðan hafi verið á sjúkrahúsinu. Hvernig fólk sem var veikt af kórónuveirunni hafi aldrei náð inn á sjúkrahúsið úr sjúkrabílunum og að tugir hafi látist á sjúkrahúsinu þar sem hún starfaði. Í frétt NYT kemur fram að 59 sjúklingar hafi látist á sjúkrahúsinu en alls eru sjúkrarúmin þar 200 talsins. 

AFP

Stjórn sjúkrahússins segir í yfirlýsingu að Lorna Breen hafi staðið sig eins og hetja í starfi og lagt sig alla fram til þess að sinna sjúklingum. Lögreglustjóraembætti Charlottesville tekur í sama streng í fréttatilkynningu sem send var út um andlát hennar og þar er henni einnig lýst sem hetju.

Þar kemur fram að neyðarlínunni hafi borist beiðni um aðstoð 26. apríl og Breen hafi verið flutt á sjúkrahús og látist látist þar af völdum áverka sem hún hefði veitt sér sjálf. Lögreglustjórinn, RaShall Brackney, segir í fréttatilkynningu að heilbrigðisstarfsmenn í framlínunni og bráðaliðar séu ekki undanskildir þegar kemur að andlegu eða líkamlegu álagi vegna farsóttarinnar sem nú geisar. Á degi hverjum starfi þessir sérfræðingar við erfiðari aðstæður en hægt er að ímynda sér. 

Frétt BBC

Í gær greindi ríkisstjóri New York, Andrew Cuomo, frá því að miðað við mótefnamælingar í New York-borg sé hægt að áætla að fjórðungur borgarbúa hafi smitast af kórónuveirunni en alls eru íbúar borgarinnar 8,3 milljónir talsins.

Ef þig langar að ræða við einhvern í tengslum við það sem kemur fram í þessari frétt geturðu m.a. haft samband við hjálparsíma Rauða krossins (1717), Pítea samtökin eða Sorgarmiðstöðina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert