Donald Trump: „Farið heim“

Donald Trump bað stuðningsmenn sína að fara heim eftir að …
Donald Trump bað stuðningsmenn sína að fara heim eftir að hafa brotið sér leið inn í þinghúsið í Washington DC. AFP

Donald Trump forseti Bandaríkjanna birti rétt í þessu myndbandsupptöku á Twitter þar sem hann hvatti stuðningsmenn sína sem hafa ráðist inn í þinghús Bandaríkjaþings í Washington DC. Innandyra fór fram sameiginlegur þingfundur fulltrúadeildarinnar og öldungadeildarinnar, en þar átti að staðfesta kjör Joe Bidens í forsetakosningunum í nóvember.

Boðað hafði verið til mótmæla í borginni og hafði Trump hvatt stuðningsmenn sína til að mæta. Meðan þingfundurinn, sem nú hefur verið frestað, fór fram brutu mótmælendur sér leið inn í þinghúsið í gegnum raðir lögreglumanna. Staðfest hefur verið að einn hafi verið skotinn.

Í stuttu ávarpi sínu segir Trump að svik hafi verið viðhöfð í kosningunum og ítrekar hann þar með málaflutning sinn síðustu vikur, þrátt fyrir að dómstólar vestanhafs hafi ítrekað hafnað öllum slíkum ásökunum. Segir Trump jafnfram að hann skilji sársauka og óánægju fólksins með niðurstöðu kosninganna, en að fólk verði að fara að lögum og reglu og að hann vilji ekki sjá neinn slasast.

Að lokum ítrekar hann á ný að kosningunum hafi verið stolið frá sér og kjósendum áður en hann ítrekar beiðni sína um að mótmælendur fari heim. „Farið heim,“ segir Trump.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka