Macron býst við því versta eftir símtal frá Pútín

Vladimír Pútín og Emmanuel Macron.
Vladimír Pútín og Emmanuel Macron. AFP

Emmanuel Macron Frakklandsforseti telur að það versta sé enn ekki yfirstaðið í Úkraínu, eftir níutíu mínútna langt símtal við Vladimír Pútín Rússlandsforseta í dag.

Pútín virðist staðráðinn í að ná allri Úkraínu á sitt vald, að því er aðstoðarmaður Macrons tjáir blaðamönnum í skjóli nafnleyndar í dag.

„Forsetinn býst við því að það versta sé í vændum, miðað við það sem Pútín sagði honum,“ er haft eftir aðstoðarmanninum.

„Þú ert að ljúga að sjálfum þér“

Tekið er fram að Pútín hafi hringt í Macron, en til þessa hafa símtölin yfirleitt verið á hina leiðina.

„Það var ekkert sem Pútín gat sagt okkur sem gat hughreyst okkur. Hann sýndi fram á mikinn ásetning til að halda áfram aðgerðunum,“ segir aðstoðarmaðurinn.

Bætir hann við að Pútín muni, í eigin orðum, „af-nasistavæða Úkraínu þar til öllu lýkur“.

„Þú ert að ljúga að sjálfum þér,“ sagði Macron við Pútín að sögn aðstoðarmannsins.

„Landið þitt verður einangrað“

„Landið þitt mun gjalda þetta dýru verði, landið þitt verður einangrað, veikburða og undir þvingunum í mjög langan tíma.“

Macron mun einnig hafa þrýst á um að Pútín forðaðist að valda borgurum tjóni og greiða leiðina fyrir mannúðaraðstoð.

„Pútín svaraði á þann veg að hann styddi það en gerði engar skuldbindingar,“ segir aðstoðarmaðurinn. Bætir hann við að Pútín hafi neitað því að rússneski herinn sé að reyna að hæfa byggingar borgara í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert