Raspútítsa – Þegar vegirnir hverfa

Frá sameiginlegar heræfingu Hvíta-Rússlands og Rússlands fyrir innrásina.
Frá sameiginlegar heræfingu Hvíta-Rússlands og Rússlands fyrir innrásina. AFP

„Vegirnir urðu fljótt að engu öðru en farvegum með óendanlegu magni af drullu sem lét farartæki okkar hreyfast áfram á hraða snigilsins.“

Þannig lýsti þýski hershöfðinginn Heinz Guderian aðstæðum sem innrásarlið Þjóðverja í Sovétríkjunum þurfti að þola haustið 1941. 

Breskur blaðamaður sem varð vitni að gagnárás Sovétmanna í Úkraínu 1944 lýsti aðstæðum svona:

„Úkraínska vordrullan er eitthvað sem menn verða að sjá til að trúa. Allt landið er á floti og vegirnir eru eins og árfarvegir af drullu, oft um sjö metra djúpir.“

Mongólar, Frakkar og Þjóðverjar

Rússar eiga sérstakt hugtak fyrir þessar aðstæður, Raspútítsa, sem á íslensku gæti kallast tímabil án vega. Og það er einmitt þetta sem sumir sérfræðingar telja rússneska herinn nú glíma við á vissum svæðum í Úkraínu.

Náttúruaðstæður sem höfðu áhrif á innrás Mongóla á þrettándu öld, Frakka undir stjórn Napóleons á þeirri nítjándu og Þjóðverja undir stjórn Hitlers á tuttugustu.

Bílalest innrásarliðs Rússa hefur nú dögum saman stefnt í átt að Kænugarði en fer hægt yfir.

Raunar svo hægt að leyniþjónustur Bandaríkjanna og Breta telja útilokað annað en að hermenn þar glími við bæði mikil véla- og birgðavandræði í bland við erfið náttúruöfl, samhliða breytingum í veðráttu.

Þýski herinn reynir að komast yfir drullusvað í Úkraínu.
Þýski herinn reynir að komast yfir drullusvað í Úkraínu.

Sitja fastir í drullu

Svo hafa úkraínskir hermenn einnig gert þeim erfitt fyrir.

Leyniþjónustur Bandaríkjanna segjast búa yfir myndum sem sýna bryndreka Rússa yfirgefna hvar þeir sitja fastir í drullu og eru merki þess að hermenn hafi reynt að losa tækin með því að fella tré og koma þeim fyrir undir hjólabúnaði í von um viðspyrnu.

Sé þetta rétt þá er um að ræða endurtekningu á reynslu Rússa fyrir innrásina, þar sem á nýliðnum heræfingum festu þeir ósjaldan tæki sín með tilheyrandi vandræðagangi.

Drepst á í miðri orrustu

Leyniþjónusturnar nefna fleira sem hægir á Rússum en náttúruöflin og það er þeirra eigin undirbúningur. Bryndrekar þeirra og bílar virðast ítrekað verða olíulausir, bæði í þessari bílalest og annars staðar í Úkraínu.

Eru til að mynda dæmi um að drepist hafi á hertækjunum vegna olíuleysis í miðri orrustu við hersveitir heimamanna.

Ef það er ekki nóg þá eru einnig vísbendingar um að mörg af tækjum Rússa séu svo illa farin og úr sér gengin að þau þola hreinlega ekki notkun. Bilanatíðni er því sögð há. Rotin og slitin dekk virðast vera sérstakt vandamál.

Skriðdrekar frá Hvíta-Rússlandi og Rússlandi á æfingu í febrúar.
Skriðdrekar frá Hvíta-Rússlandi og Rússlandi á æfingu í febrúar. AFP

Grasserandi spilling

Ástæðan fyrir þessu öllu saman, að mati sérfræðinga, er grasserandi spilling innan hersins og langvarandi fjárskortur, þrátt fyrir mikla uppbyggingu Pútíns Rússlandsforseta að undanförnu.

Þá hefur einnig komið á óvart hve illa mismunandi einingar innan hersins virðast vinna saman.

Sjálfur sagðist Pútín Rússlandsforseti nú í kvöld vera ánægður með gang innrásarinnar. Fáir hnökrar séu á henni og allt samkvæmt áætlun. Ef til vill sér forsetinn eitthvað sem heimurinn sér ekki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert