Viðskiptaþvinganir ekki viðeigandi

Janet Yellen fjármálaráðherra Bandaríkjanna.
Janet Yellen fjármálaráðherra Bandaríkjanna. AFP

Janet Yellen, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í dag á blaðamannfundi að viðskiptaþvinganir á hendur Kína væru hvorki nauðsynlegar né viðeigandi þar sem stuðningur Kínverja við innrás Rússlands væri enn óljós.

Hún bætti því við að embættismenn í stjórn Bidens væru í viðræðum við stjórnvöld í Kína til þess að ganga úr skugga að þau skilji afstöðu Bandaríkjanna.

Einnig sagði hún að yfirvöld í Bandaríkjunum myndu hafa miklar áhyggjur af því, ef til þess kæmi að Kínverjar myndu senda vopn til Rússlands eða hjálpa Rússum að komast hjá viðskiptaþvingunum Vesturlanda. Að sögn Yellens er ekkert sem bendi til þess.

Ráðherrann varaði einnig við því að olíuverð gæti haldið áfram að hækka í Bandaríkjunum, en verðbólga í Bandaríkjunum er nú þegar sú mesta sem hefur sést í 40 ár. Vinsældir Bidens hafa dvínað í kjölfar hækkandi olíuverðs og mikillar verðbólgu.

Yfirvöld í Bandaríkjunum eru þó að reyna sporna gegn hækkandi olíuverði með því að ganga á olíuforða landsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert