Óttast að fuglaflensa breiðist meira út til manna

Sérfræðingar óttast að fuglaflensa berist í menn.
Sérfræðingar óttast að fuglaflensa berist í menn. AFP

Auknar áhyggjur eru af vaxandi útbreiðslu fuglaflensu í heiminum. Afbrigðið H5N1 hefur borist í dýrategundir sem áður var talið að væru ekki næmar fyrir afbrigðinu.

Þá hafa tilfelli einnig greinst meðal manna og meira en helmingur þeirra sem smituðust lifðu sjúkdóminn ekki af.

Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­in hefur lýst áhyggjum sínum af stöðunni. 

Hræðast alheimsfaraldur

Núverandi fuglaflensufaraldur hófst árið 2020 og hefur leitt til dauða tugmilljóna alifugla en villtir fuglar og land- og sjávarspendýr hafa einnig smitast. 

Í síðasta mánuði bættust kýr og geitur við lista þeirra tegunda sem smitast hafa af afbrigðinu. Áður var talið að dýrategundirnar væru ekki næmar fyrir afbrigðinu og vöktu smitin því óhug. 

„Stóra áhyggjuefnið er auðvitað að með fjölgun smita í fuglum og spendýrum muni afbrigðið þróast og í kjölfarið smita menn i meira mæli og síðan öðlast getuna til að ferðast milli manna,“ segir Jeremy Farrar, yfirvísindamaður Heilbrigðisstofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Nú geta menn einungis smitast af dýrum en ekki borið afbrigðið sín á milli.

Í þeim tilvikum þar sem menn hafa smitast af dýrum hefur dánartíðnin verið mjög há eða um 52%. Smit meðal manna hafa greinst í 23 löndum frá því í byrjun 2023 og hafa 463 látist.

Í leit að nýjum hýslum

Fyrr í mánuðinum tilkynntu bandarísk yfirvöld að einstaklingur væri að jafna sig af fuglaflensu eftir að hafa verið nálægt mjólkurkú. 

Samkvæmt WHO er það í fyrsta skipti þar sem einstaklingur veikist af flensunni eftir að hafa komist í snertingu við sýkt spendýr. 

„Þegar afbrigðið er komið inn í spendýrastofninn þá er það að færa sig nær mönnum,“ sagði Farrar og varaði við því að afbrigðið væri að leita að nýjum hýslum.

Hann kallar eftir auknu eftirliti og fullyrðir að það sé mjög mikilvægt að vita hversu margir einstaklingar smitist vegna þess að þar muni aðlögun afbrigðisins eiga sér stað. 

Þá segir hann nauðsynlegt að tryggja að heilbrigðisyfirvöld hafi getu til að greina vírusinn og að þróun bóluefna og lækninga haldi áfram. Með því verði heimurinn í aðstöðu til að bregðast strax við ef upp kæmu smit milli manna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert