Besta lausnin er aðild að ESB

Breska viðskiptablaðið Financial Times segir í forustugrein í dag, að það hafi alltaf verið verið erfitt, ef ekki vonlaust, að reka sjálfstæða peningastefnu í litlu opnu hagkerfi líkt og á Íslandi. Nú sé slíkt ekki lengur gerlegt. Besta lausnin fyrir Ísland sé að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru enda sé um helmingur utanríkisviðskipta landsins við evrusvæðið. 

FT segir, að þrátt fyrir bankahrunið og aðra erfiðleika sé grundvöllur efnahagslífs Íslands enn traustur og árangur þjóðarinnar, sem býr á lítilli eldfjallaeyju í miðju Atlantshafi, raunar öfundsverður.

Íslendingar hanni og framleiði tækjabúnað fyrir sjávarútveg um allan heim. Álfélög hafi fjárfest umtalsvert í landinu vegna þess að þar sé að finna ódýra vatns- og jarðvarmaorku. Ferðaþjónusta sé umtalsverð og landið hafi fært heiminum Nóbelsskáldið Halldór Laxness og tónlist Bjarkar.

„Þótt íslenska fjármálakerfið hafi nánast þurrkast út er engin ástæða til að ætla annað en að aðrar atvinnugreinar á landinu geti blómstrað á ný. Ísland er ekkert bananalýðveldi. Vandamálin, sem við blasa, eru hins vegar mikil. Það er í miðri banka- og fjármálakreppu. Stöðugleikinn í stjórnmálum er horfinn og ríkisstjórnin þarf ekki aðeins að bjarga efnahag landsins heldur einnig koma á friði á ný í stjórnmálalífinu," segir blaðið.

Þess vegna geti Jóhanna Sigurðardóttir, nýr forsætisráðherra, ekki beðið með umbætur, ekki sé hægt að bíða þingkosninga. Mest liggi á umbótum í peningamálum. 

Financial Times segir, að besta lausnin fyrir Ísland væri að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna. „Það væri skaði, ef samstarfsflokkurinn í nýju ríkisstjórninni heldur áfram að berjast gegn því. En verði það tilfellið verður Ísland að skoða möguleikanna á að taka upp gjaldmiðlasamstarf við eitthvert af hinum Norðurlöndunum. Á sama tíma verður ríkisstjórnin að taka til í rústum bankakerfisins og gera hreint fyrir sínum dyrum varðandi skuldir bankanna.

Þessar umbætur eru nauðsynlegar en þær nægja ekki. (Jóhanna) Sigurðardóttir verður einnig að koma fram með aðgerðir til að milda áhrif þeirrar aðlögunar, sem hagkerfið gengur í gegnum, svo fólk, sem nú er að tapa vinnu sinni, geti fundið ný störf. Fæst þeirra starfa verða á fjármálasviðinu. Ísland hefur enn margt annað sem það getur selt."

Leiðari Financial Times

mbl.is

Bloggað um fréttina