Fréttaskýring: Íslendingar vilja á methraða í viðræður

Ísland í hópinn? Mikið verk bíður íslenskrar stjórnsýslu við að …
Ísland í hópinn? Mikið verk bíður íslenskrar stjórnsýslu við að svara ítarlegum spurningum framkvæmdastjórnar ESB, m.a. um stjórnkerfið. Reuters

Mörg dæmi eru um skemmri afgreiðslutíma en 14 mánuði á álitsgerð framkvæmdastjórnar ESB. Sérfræðingur Evrópumála segir bjartsýni að telja að álitsgerð verði lokið fyrir desember.

Því hefur verið haldið fram í fjölmiðlum að álitsgjöf framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins vegna umsókna ríkja um aðildarviðræður hafi skemmst tekið 14 mánuði. „Skemmsti tími álitsgerðar framkvæmdastjórnarinnar á umsóknarlandi tók 14 mánuði, en í tilfelli Íslands ýtir Stokkhólmur á yfirmenn ESB að ljúka ferlinu undir sænsku forsæti svo viðræður geti hafist snemma árs 2010,“ segir á fréttavefnum EurActiv sem sérhæfir sig í fréttum af málefnum ESB.

Heimildarmaður innan framkvæmdastjórnar ESB vildi ekki kannast við að stysti tími slíkrar álitsgerðar væri 14 mánuðir þegar blaðamaður spurði hann álits í gær. Hann nefndi ferlið vegna umsóknar Finnlands sem dæmi en sagði jafnframt að fara þyrfti varlega við að bera saman umsóknarferli landa, þó að EFTA-löndin stæðu vissulega í svipuðum sporum á mörgum sviðum.

Mörg dæmi um fljóta afgreiðslu

Í bók Auðuns Arnórssonar „Inni eða úti? Aðildarviðræður við Evrópusambandið“ er að finna töflu yfir áfanga í stækkunarsögu ESB. Þar kemur m.a. fram að afgreiðsla mats framkvæmdastjórnarinnar vegna landa sem áður höfðu eða eiga enn aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA), eins og Noregur, Finnland og Svíþjóð tók í flestum tilfellum skemmri tíma en annarra þjóða. Auðunn telur líklegt að umræðan um 14 mánuðina eigi við um síðustu stækkunarlotu þegar Slóvenía fór í gegnum mat ráðsins á skemmstum tíma, eða 14 mánuðum. „Það eru mörg dæmi um fljótari afgreiðslu frá fyrri stækkunarlotum niður fyrir hálft ár,“ segir Auðunn.

Framkvæmdastjórn ESB gaf álit sitt vegna umsóknar Noregs um aðildarviðræður eftir aðeins fimm mánaða matsferli. Sama ferli tók níu mánuði vegna umsóknar Finna árið 1992 og 12 mánuði vegna umsóknar Svía árið 1991.

Íslensk yfirvöld bíða nú eftir löngum og ítarlegum spurningalista framkvæmdastjórnarinnar. Svörin verða svo til hliðsjónar ákvörðun leiðtoga ESB um hvort Íslendingum verði hleypt til aðildarviðræðna eða ekki.

Íslensk stjórnvöld stefna á að verða komin í gegnum ferlið fyrir næsta leiðtogafund ESB í desember.

„Þeir biðja um ítarupplýsingar þegar þeir eru búnir að fá svörin frá okkur og ég vænti þess að framkvæmdastjórnin verði tilbúin með sína skýrslu um hæfni Íslands ekki seinna en í lok nóvember. Mér er sagt að það sé methraði en Íslendingar ferðast oft hratt,“ segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. Auðunn Arnórsson segir að svo hröð meðferð gæti orðið erfið. „Samkvæmt mínum heimildum í Brussel þykir það bjartsýni að ætla að þessu mati framkvæmdastjórnarinnar verði lokið í desember. Raunhæfara sé að áætla að það verði ekki fyrr en á leiðtogafundinum í mars sem ákvörðun verði tekin um formlegar viðræður,“ segir Auðunn.

Hver veit svörin?

Stjórnsýsla ríkja er misvel til þess fallin að svara ítarlegum spurningum framkvæmdastjórnar ESB. Í síðustu viku fékk Svartfjallaland spurningalista frá ESB með rúmlega 2.000 spurningum. Í vor auglýstu yfirvöld í Svartfjallalandi eftir alþjóðlegum ráðgjöfum til að undirbúa stjórnsýsluna fyrir spurningalistann. Að svara spurningunum er „mjög yfirgripsmikið og krefjandi starf fyrir opinbera stjórnsýslu í Svartfjallalandi, rétt eins og fyrir önnur lönd,“ sagði m.a. í auglýsingunni.

„Íslenska stjórnsýslan er vön að fást við regluverk sambandsins,“ segir Auðunn Arnórsson, sérfræðingur í Evrópumálum. Hann segir íslenska stjórnsýslu standa vel að vígi hvað þetta varði, aðildin að EES-samningnum geri þar gæfumuninn og vinnan ætti því ekki að vefjast fyrir fólki.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær