Jafnvel Stasi hefði ekki stöðvað Breivik

Yfirmaður norsku öryggislögreglunnar, PST, segir að eftir að stofnunin hafi farið yfir gögn sín sé niðurstaðan sú, að ekki hafi verið mögulegt að hindra að Anders Behring Breivik gerði hryðjuverkaárásirnar sl. föstudag.

„Ekki einu sinni Stasi í Þýskalandi hefði getað komist að því, að Breivik væri hugsanlegur hryðjuverkamaður," segir Janne Kristiansen, forstjóri PST, við norska blaðið Aftenposten.

Hún vísar þar til austur-þýsku leyniþjónustunnar, sem fylgdist grannt með Austur-Þjóðverjum og safnaði um þá gríðarlegu magni af gögnum.

Jon Fitje, sem stýrir greiningardeild PST, tekur í sama streng. 

„Aðrir verða að svara því hvort við brugðumst. En það er ekki hægt að grípa til aðgerða gegn einstaklingum ef þeir gera ekkert af sér," segir Fitje við Aftenposten. Ekkert hafi bent til þess, að Breivik hefði fyrirætlanir um að fremja fjöldamorð. 

Hann segir að það hafi verið ómögulegt, með þeim aðferðum sem norska samfélagið hafi yfir að ráða, að gera sér grein fyrir því í hvað stefndi og það valdi áhyggjum.

„En Breivik keypti vopn, tilbúinn áburð og lýsti öfgaskoðunum," segir blaðamaður Aftenposten. 

„Við höfum skoðað ummæli hans (á samskiptavefjum). Þau eru ekki sérlega uggvænleg. Ef við ættum að fylgjast með öllum, sem setja fram gagnrýni þá þyrftum við að að fylgjast með mörgum. Þannig samfélag viljum við ekki hafa," segir Fitje. 

Vefur Aftenposten

mbl.is

Erlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær

Þriðjudaginn 23. apríl

Mánudaginn 22. apríl

Sunnudaginn 21. apríl