Hinn látni sleginn þrisvar í höfuðið með sama barefli

Atli Helgason með Jóni Egilssyni verjanda sínum í Héraðsdómi Reyjavíkur …
Atli Helgason með Jóni Egilssyni verjanda sínum í Héraðsdómi Reyjavíkur í gær. mbl.is/Ásdís

Aðalmeðferð í máli ríkissaksóknara gegn Atla Guðjóni Helgasyni vegna morðsins á Einari Erni Birgissyni hófst fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Í frásögn Örlygs Steins Sigurjónssonar af þinghaldinu kemur fram að ákærði trúi ekki hann hafi valdið hinum látna öllum þeim áverkum sem lýst er í ákæru. Sá framburður stangast á við réttarmeinafræðirannsókn á hinum látna.

Þóra Stephensen réttarmeinafræðingur, sem ber vitni í máli ríkissaksóknara gegn Atla Guðjóni Helgasyni fyrir morðið á Einari Erni Birgissyni 8. nóvember sl., sagði við aðalmeðferð málsins í gærað þrír af fjórum höfuðáverkum á líki hins látna samrýmdust því að hann hefði verið barinn í höfuðið með slaghamri. Einar lést af völdum höfuðáverka og sagði Þóra að höfuðáverkarnir þrír, þeir alvarlegustu, hefðu verið veittir með sama barefli. Ekki væri hins vegar unnt að ákvarða gerð bareflis vegna fjórða áverkans, á kinnbeini hins látna.

Telur höggin ekki hafa verið fleiri en tvö

Ákærði, Atli Helgason, bar hins vegar fyrir dómi að hann hefði í mesta lagi slegið Einar tvisvar sinnum með hamri. Sagðist hann ekki trúa því að hann hefði veitt Einari jafnmikla áverka og lýst er í ákæru en þar er Atli sakaður um að hafa slegið Einar margoft í höfuðið með hamri. Sagðist hann halda að áverkarnir hafi komið á líkið við flutning út í Arnarseturshraun, þar sem ákærði faldi líkið. Þóra Stephensen fullyrti að útilokað væri að áverkarnir hefðu hlotist við flutninginn jafnvel þótt líkið hefði fallið niður snarbratta og grýtta 11,2 m langa hlíð með höfuðið á undan. Kjálkabrot á hinum látna gæti þó verið flutningsáverki. Sagði hún að brotamynstur í höfuðkúpu hefði orðið öðruvísi ef um fall hefði verið að ræða og þá kæmu fleiri skrámur á sárbarma. Um áverkana þrjá af völdum bareflisins sagði hún að hver og einn hefði nægt sjálfstætt til að draga fórnarlambið til dauða. Rannsókn hefði sýnt að þeir hefðu verið veittir Einari á meðan hann var á lífi eða í kringum andlátið. Sagði hún að Einar hefði ekki látist samstundis við högginn og hafi hann annaðhvort verið nýlátinn eða með lífsmarki þegar hann var fluttur út í Arnarseturshraun. Sagði hún aðspurð að ekki hefði verið unnt að bjarga lífi hans eftir höfuðáverkana þrjá.

Ákærði bar fyrir sig minnisleysi á köflum daginn sem hann varð Einari að bana í Öskjuhlíðinni en lýsti atburðarásinni eins og hann taldi sig muna hana. Sagði hann að þeir Einar hefðu ákveðið að hittast í Öskjuhlíðinni og tekið upp léttar samræður sem endranær, enda hefðu þeir verið mjög góðir vinir. Þeir hafi rætt um framtíð verslunarfyrirtækis síns, starfsmannamál og fleira. Umræðurnar hafi síðan snúist að fjármálum, þ.e. 3 milljónir króna sem ákærði hafi átt að leggja fram til fyrirtækisins. Ekki hafi verið rætt um hvort þeir fjármunir hafi verið hlutafé eða með hvaða hætti átti að leggja þá fram. Ákærði sagðist ekki hafa haft umrædda peninga og hafi í kjölfarið sprottið upp deilur milli hans og Einars. Sagði ákærði að þær hefðu magnast mjög og báðir hefðu orðið æstir. Sagði hann Einar hafa hrint sér og hann ýtt við Einari til baka. Sagði hann Einar hafa slegið til sín og hann hörfað undan í kringum bifreið sína sem í var hamar og fleiri verkfæri sem hann notaði við smíðar. Hann hafi opnað farþegadyr bifreiðarinnar og náð í hamarinn sem hann ætlaði að ógna Einari með. Hafi Einar þá komið vaðandi að sér og ákærði þá slegið hann með hamrinum. Við höggið hafi Einar fallið á bakið. Ákærði sagðist hafa kallað á hinn látna og reynt lífgunartilraunir með því að beita hjartahnoði. Hafi ákærði ætlað að kalla á hjálp en sagðist af einhverjum ástæðum hafa hætt við það. Lýsti ákærði því er hann opnaði farangursgeymslu bifreiðar sinnar og kom líkinu þar fyrir. Ennfremur hafi hann sett blóðuga steina í bifreiðina til að hylja verksummerki. Fram kom í framburði lögreglumanna, sem leidd voru fyrir dóminn sem vitni, að ekki hefði greinst blóð í Öskjuhlíðinni við rannsóknir á 60 til 70 fermetra svæði.

Ók með líkið til Grindavíkur

Ákærði sagðist eftir verknaðinn hafa ekið um í æðiskasti og tekið stefnuna í átt að Hafnarfirði. Hann hafi ekið til Grindavíkur með viðkomu á hugsanlegum felustað, malarnámum skammt frá Álverinu í Straumsvík. Hafi hann snúið þaðan en við komuna til Grindavíkur hafi hann hugleitt að henda líkinu í Grindavíkurhöfn en hætt við það. Sagðist hann hafa endað með líkið í Arnarseturshrauni og dregið það út úr farangursgeymslunni. Hafi hann verið staddur á brún snarbrattrar hlíðar sem lá niður að hellisskúta og haldið í fætur líksins. Vegna þyngdarinnar sagðist hann hafa misst líkið úr höndunum og það því runnið niður. Lýsti ákærði að hann hefði heyrt brothljóð þegar líkið rakst á fyrirstöðu og taldi að um hálsbrot hefði verið að ræða. Líkið hafi hann síðan falið og ekið brott. Hafi hann átt viðkomu í Hafnarfjarðarhöfn, Elliðaám og nýju höfninni í Kópavogi til að losa sig við sönnunargögn, morðvopnið, síma Einars, steinahrúguna úr Öskjuhlíðinni og blóði drifna járnvinkla. Lýsti ákærði því að tímasetningar þennan dag hafi verið út og suður og dagurinn verið sem hryllingsmynd. Hann hafi þrifið blóð úr bifreið sinni samdægurs og jafnframt fært bifreið Einars úr Öskjuhlíðinni niður að bifreiðastæði við Hótel Loftleiðir. Peningauppgjöri sem Einar hafði verið með hafi hann komið fyrir í fatavösum heima hjá sér.

Ákvað að leyna verknaðinum af einhverjum ástæðum

Ákærði sagði það hafa orðið sér ljóst að Einars var saknað að kvöldi 8. nóvember og hafi dagarnir sem fylgdu í kjölfarið verið hræðilegir. Bar hann að hann hafi ákveðið að leyna verknaðinum af einhverjum ástæðum. Hafi sjálfsmorðshugsanir sótt á sig og hann vitað að allt sem hann gerði hefði verið rangt. Daginn eftir hafi hann og eiginkona hans farið í banka og hann millifært 300 þúsund krónur milli reikninga fyrirtækis þeirra Einars. Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa ætlað að yfirtaka framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Hafi hann gert sér grein fyrir að fyrirtækið væri hrunið og draumurinn um það væri úti fyrir sinn tilverknað. Um þetta leyti hafi hann séð tvo kosti, þ.e. að deyja frá gjörðum sínum eða segja frá þeim. Hann hafi ekki getað dáið frá orðnum hlut og þar með skilið tvær fjölskyldur eftir í óvissu og því hafi hann leyst frá skjóðunni.

Ákærði greindi frá mikilli amfetamínneyslu á síðasta ári og mikilli efedrínneyslu fram að atburðinum og hefðu fráhvarfseinkenni vegna amfetamínneyslunnar verið orðin gríðarmikil. Sagði hann Einar hafa komið sér aftur í neyslu amfetamíns og jafnframt að þeir hefðu neytt eiturlyfsins saman. Ekkert vitni, hvorki úr hópi lögreglumanna né önnur vitni, könnuðust við að Einar hefði neytt fíkniefna. Jafnframt kom fram að við rannsókn á líki Einars hefðu ekki fundist neinar leifar af fíkniefnum.

Ákærði ítrekaði frásögn sína um náinn vinskap sinn við Einar í lifanda lífi og sagði þá aldrei hafa rifist eða beitt hvor annan ofbeldi. Framburður annarra vitna, sem leidd voru fram við aðalmeðferðina, gaf til kynna að það væri rétt. Ákærði sagði að það hefði aldrei verið ásetningur sinn að bana Einari og gæti hann ekki litið öðruvísi á verknaðinn en hræðilegt slys sem orðið hefði af völdum sturlunar. Hann sagði þá Einar hafa verið jafningja og hvorugur hefði verið yfir hinn settur innan fyrirtækisins.

Ríkissaksóknari ákærir Atla einnig fyrir fjárdrátt með því að hafa dregið sér og notað heimildarlaust í eigin þágu rúmlega fjórar milljónir sem voru eign fyrirtækis þeirra Einars. Ákærði sætir ennfremur ákæru fyrir fjárdrátt með því að hafa í opinberu starfi á árunum 1999 og 2000 sem héraðsdómslögmaður og skipaður skiptastjóri dregið sér 1,2 milljónir króna. Þá er honum gefið að sök að hafa dregið sér um 1,7 milljónir sem skiptastjóri þrotabús Agnars W. Agnarssonar. Ákærði neitar sök um öll ákæruatriði vegna fjárdráttar.

Aðalmeðferð málsins heldur áfram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, föstudag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert