Landsvirkjun samþykkir samning við Fjarðaál

Kárahnjúkar.
Kárahnjúkar. mbl.is/RAX

Stjórn Landsvirkjunar samþykkti á fundi sínum í dag rafmagnssamning Landsvirkjunar og Fjarðaáls sf. Jafnframt fól stjórnin stjórnarformanni og forstjóra að undirrita sameiginlega rafmagnssamninginn.

Samþykkt stjórnarinnar var gerð með fyrirvara um nokkur atriði, þau að eigendur Landsvirkjunar samþykki að ábyrgjast lántökur Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar, að samningar takist við Impregilo S.p.A. um byggingaframkvæmdir Kárahnjúka-stíflu og jarðgangagerð Kárahnjúkavirkjunar, að ljóst sé að úrskurður ESA vegna rafmagnssamnings við Fjarðaál verði Landsvirkjun í hag og að fyrir liggi á Alþingi stjórnarfrumvarp til heimildarlaga vegna byggingar álvers Fjarðaáls á Reyðarfirði.

Stjórnin samþykkti tillöguna með 6 atkvæðum en Helgi Hjörvar, einn þriggja fulltrúa Reykjavíkurborgar greiddi atkvæði á móti. Hann lagði fram bókun til að gera grein fyrir atkvæði sínu. Hið sama gerði Edda Rós Karlsdóttir, einn fulltrúa ríkisins í stjórninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert