Minnisvarði um fyrstu lúthersku kirkjuna afhjúpaður

Ólafur Ragnar og Johannes Rau, forsetar Íslands og Þýskalands, afhjúpa …
Ólafur Ragnar og Johannes Rau, forsetar Íslands og Þýskalands, afhjúpa minnismerkið við Hafnarfjarðarhöfn. mbl.is/Júlíus

Johannes Rau, forseti Þýskalands, og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, voru rétt í þessu að afhjúpa minnismerki um fyrstu lúthersku kirkjuna sem reist var á Íslandi, við hátíðlega athöfn sem nú stendur yfir við Flensborgarhöfn í Hafnarfirði.

Kirkjan stóð á Háagranda í Hafnarfirði þar sem þýskir Hamborgar kaupmenn stunduðu verslun sína í rúmlega eina öld. Talið er að hún hafi verið byggð árið 1533, fyrir 470 árum, en síðast er áætlað að messað hafi verið í henni haustið 1603. Þá hurfu þýsku kaupmennirnir frá Íslandi í síðasta sinn eftir að hafa stundað hér kaupmennsku og veiðar við Íslandsstrendur áratugum saman. Þar með lauk þýsku öldinni í Hafnarfirði og annars staðar á landinu og svokallaður einokunartími tók við.

Þýskur listamaður, Hartmut Wolf, er höfundur minnismerkisins. Það myndar táknrænan gotneskan boga úr íslensku grjóti og er 6,5 metra hátt. Því er ætlað að vera eins konar hlið sem vísa á til sögunnar, samskipta þýskra sæfara við Íslendinga til forna. Er boginn og hugsaður sem gluggi sem vísar veginn til framtíðar.

Rau kom til landsins í morgun og tóku Ólafur Ragnar og Dorritt Moussaieff forsetafrú á móti honum og fylgdarliði við Bessastaði á 12. tímanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert