Segir Atómstöðina eiga sér fyrirmynd í tékkneskri bók

Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson mbl.is/Golli

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor við Háskóla Íslands, segir að margt í Atómstöðinni eftir Halldór Laxness standist ekki tímans tönn enda hafi allt reynst rangt sem höfundur bókarinnar og aðrir sósíalistar hefðu sagt um svik og landsölu ráðamanna. Hins vegar stæði eftir lipurlega skrifuð skáldsaga um algengt efni, ævintýri ungrar sveitastúlku í borg. Þetta kom fram í erindi Hannesar á félagsvísindaþingi sem nú stendur yfir í Háskóla Íslands.

Hannes Hólmsteinn segir að líta megi á Atómstöðina sem þrjár sögur með þrjú nöfn, eins og sjáist á þýðingum erlendis. Atómstöðin sé saga um svik. Hús organistans sé um taóisma, friðinn bak við skarkalann. Norðanstúlkan sé um sveitastúlku, sem lendir í ævintýrum í borginni.

Það kom fram í erindi Hannesar að Atómstöðin eigi sér sterka fyrirmynd í bókinni Anna öreigastúlka (Anna proletarka) eftir tékkneska kommúnistann Ivan Olbracht, sem gerist í Prag 1919-1920, en Einar Olgeirsson hafði einmitt í ritdómi 1932 bent Halldóri á þessa bók sem réttar og sannar öreigabókmenntir, að sögn Hannesar. Margt sé hliðstætt í þessum bókum. Anna og Ugla koma báðar saklausar sveitastúlkur inn á yfirstéttarheimili, fjögur börn eru á heimilinu, og verður eldri stúlkan þunguð, en einn sonurinn er gjálífur.

Ugla og Anna kynnast báðar öðrum heimi, Unuhúsi og Karl-Marx-félaginu, og góðum piltum, verða báðar þungaðar og ala barn sitt annars staðar. Þær öðlast báðar stéttarvitund, og báðum sögunum lýkur á torgum. Ugla sér jarðsetningu jarðneskra leifa Jónasar Hallgrímssonar í Reykjavík, Anna er á útifundi í Prag. Í báðum bókunum er undirtónninn svik, í Atómstöðinni er landið selt, en í Önnu öreigastúlku svíkja jafnaðarmenn málstað öreiganna, að sögn Hannesar Hólmsteins.

Thor Vilhjálmsson Landaljómi?

Hannes Hólmsteinn sagði, að ein fyrirmynd Uglu sé Arnheiður Sigurðardóttir, og séu vísbendingar um það í sögunni, auk þess sem Halldór hafi látið að því liggja við Arnheiði sjálfa. Fyrirmynd organistans sé kunnari. Hann sé settur saman úr tveimur mönnum, Erlendi í Unuhúsi og Þórði Sigtryggssyni, en Hannes Hólmsteinn sagðist hafa lesið óprentaða og óprenthæfa sjálfsævisögu hans í handritadeild Þjóðarbókhlöðu. Fyrirmyndir Búa Árlands séu aðallega Guðmundur Vilhjálmsson, forstjóri Eimskipafélagsins, og Pálmi Hannesson rektor. Forsætisráðherrann sé auðvitað Ólafur Thors. Atómstöðin sé öðrum þræði harkaleg árás á Ólaf.

Aukapersónur sögunnar eigi sér líka fyrirmyndir. Landaljómi sé til dæmis Thor Vilhjálmsson, sonur Guðmundar Vilhjálmssonar, guðinn briljantín sé Ragnar Frímann Kristjánsson, sem alræmdur var um 1945, og Kleópatra eigi sér fyrirmynd í Guðmundu Sigurðardóttur, eins og sterkar vísbendingar séu um í sögunni. Bítar eða Tvö hundruð þúsund naglbítar sé settur saman úr Sigurjóni Péturssyni í Álafossi og Jóhanni Þ. Jósefssyni, en blýgrái, sorglegi maðurinn sé vitaskuld Jónas frá Hriflu. Halldór hagnýti sér líka ýmislegt úr Reykjavíkurlífinu um 1945-1947, að sögn Hannesar.

Hannes Hólmsteinn rakti í fyrirlestrinum viðbrögðin við Atómstöðinni. Ígór Kortsjatín, fyrsti sendiráðsritari í sendiráði Sovétríkjanna, hafi verið ánægður með bókina, eins og sjá megi af skýrslum í Moskvu, líka margir íslenskir sósíalistar, svo sem Halldór Stefánsson, Jakob Benediktsson og Sverrir Kristjánsson. En Kristján Albertsson hafi reiðst henni og kallað hana skítugan leir. Ragnar í Smára hafi talið bókina merkilegt framlag, en verið ósammála Kiljan. Ragnar hafi viljað halda í mannúð borgaralegs skipulags.

Alþekkt stef

Hannes sagði, að nokkur alþekkt stef úr skáldsögum Halldórs Laxness væru í Atómstöðinni, til dæmis ástir fullorðins manns og ungrar stúlku. Þar væru Búi Árland og Ugla, en annars staðar Steinþór og Salka Valka, Bjartur og Ásta Sóllilja, Arnas Arnæus og Snæfríður. Annað stef væri ástarþríhyrningur manns, konu og hugmyndir. Þar tæki Búi frama sinn fram yfir Uglu, en annars staðar Arnas bækur Íslands fram yfir Snæfríði, Bjartur sauðkindur fram yfir konur sínar og Ástu Sóllilju.

Halldór Laxness rannsakaður fyrir skattsvik

Hannes Hólmsteinn sagði, að það væri kaldhæðni, að í Atómstöðinni væri hæðst að faktúrufölsunum. Þær hefðu falist í því, að gróði þeirra, sem versluðu við Bandaríkin, var tekinn úti með tvöföldum viðskiptum þar (búinn til gervimilliliður), en gjaldeyristekjum ekki skilað heim. Þetta hefði skáldið einmitt sjálfur gert við gróðann af Sjálfstæðu fólki úti í Bandaríkjunum. Hann hefði talið fram kostnað þar og hirt gjaldeyristekjurnar, eins og raunar væri eðlilegt, en það hefði þó verið bannað að íslenskum lögum, að sögn Hannesar. Halldór Laxness hefði sætt rannsókn fyrir skattsvik og gjaldeyrisbrot og raunar verið dæmdur í Hæstarétti fyrir smávægileg gjaldeyrisbrot, en skattamálið hefði verið látið niður falla, að sögn Hannesar.

Margt í Atómstöðinni stæðist ekki tímans tönn, sagði Hannes Hólmsteinn, enda hefði allt reynst rangt, sem Halldór og aðrir sósíalistar hefðu sagt um svik og landsölu ráðamanna. Hins vegar stæði eftir lipurlega skrifuð skáldsaga um algengt efni, ævintýri ungrar sveitastúlku í borg. Það væri því engin tilviljun, að leikgerð sögunnar héti Norðanstúlkan. Halldór hefði sveiflast frá Lenín til Gandhí, og vísbending um það væri taóismi organistans. Hvorugur væri þó góður leiðsögumaður, Lenín eða Gandhí. Jón Trausti hefði varðað besta veginn, þegar hann hefði bent á í heiðarbýlissögum sínum, að Halla hefði að lokum fundið frelsið með því að setjast að í sjávarþorpinu, en ekki með því að hörfa upp í heiðardalinn. Í Atómstöðinni hefði Halldór hrasað niður í sveitasæluna, sem hann hefði hæðst að í Sjálfstæðu fólki. Atómstöðin væri ekki Reykjavíkursaga, heldur andreykjavíkursaga, að því er fram kom í erindi Hannesar Hólmsteins á félagsvísindaþingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert