Ákærðir fyrir að rangfæra bókhald Baugs og gefa ranga mynd af viðskiptum

Frá dómþinginu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Frá dómþinginu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Ómar

Ný ákæra í Baugsmálinu, sem þingfest var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, er í 19 liðum. Í sjö ákæruliðum er Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs, og Tryggva Jónssyni, fyrrum aðstoðarforstjóra Baugs gefið að sök meiri háttar bókhaldsbrot með því að hafa á árunum 2000 og 2001 rangfært bókhald Baugs, átt þátt í að búin voru til gögn sem áttu sér ekki stoð í viðskiptum við aðra aðila og hagað bókhaldinu með þeim hætti að það gaf ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna.

Jóni Ásgeiri er jafnframt gefið að sök rangfærsla skjala og brot gegn hlutafélagalögum með því að láta sem forstjóri Baugs senda til Verðbréfaþings Íslands á árinu 2001 opinberar tilkynningar, sem honum hafi verið ljóst að voru rangar. Þannig hafi hann vísvitandi og í blekkingarskyni greint rangt frá högum Baugs á opinberum vettvangi og skapað vísvitandi rangar hugmyndir um hag félagsins, þannig að það gat haft áhrif á sölu eða söluverð hluta í félaginu.

Jóni Gerald Sullenberger er gefið að sök að hafa á árinu 2001 aðstoðað Jón Ásgeir og Tryggva við að rangfæra bókhald Baugs með því að búa til gögn sem áttu sér ekki stoð í viðskiptum. Í ákærunni segir, að þetta hafi verið gert með því útbúa rangan og tilhæfulausan kreditreikning að fjárhæð 61.915.000 krónur frá Nordica Inc., fyrirtæki Jóns Geralds.

Þeim Jóni Ásgeiri og Tryggva er m.a. einnig gefið að sök að átt þátt í að búin væru til gögn sem ekki áttu sér stoð í viðskiptum við aðra aðila og hagað bókhaldi Baugs með þeim hætti að það gæfi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna. Þetta hafi þeir gert með því að láta færa 46,7 milljónir króna til eignar á viðskiptamannareikningi P/F SMS í Þórshöfn í Færeyjum í bókhaldi Baugs hf. og til tekna hjá Baugi á grundvelli yfirlýsingar frá P/F SMS, dagsettrar 30. júní 2001. Í ákærunni segir, að yfirlýsingin hafi verið útbúin að frumkvæði Jóns Ásgeirs og Tryggva og þeir hafi vitað að hún átti sér ekki stoð í viðskiptum aðila. Þá er tekið fram í ákærunni, að Baugur átti stóran eignarhluta í P/F SMS, en færslur vegna þessarar yfirlýsingar voru gerðar í bókhaldi aðalskrifstofu Baugs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert