Beðið um að greint yrði ranglega frá reikningi

Feðgarnir Niels og Hans Mortensen, sem reka og eiga stóran hlut í fyrirtækinu SMS í Færeyjum, fullyrtu við yfirheyrslur lögreglu að Tryggvi Jónsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri Baugs, hefði beðið þá um að útbúa tilhæfulausan kreditreikning upp á ríflega 45 milljónir króna, en Baugur átti þá helmingshlut í fyrirtækinu. Í kjölfar lögregluaðgerða gegn Baugi hefði Tryggvi beðið um fund með Niels og beðið hann að greina lögreglu rangt frá tilurð reikningsins ef til þess kæmi. Þetta kom fram í Kastljósi RÚV í gærkvöldi.

Í þættinum fór Sigmar Guðmundsson, einn þáttarstjórnenda, yfir gögn Baugsmálsins með Jóni Gerald Sullenberger, einum þriggja sakborninga í þeim hluta Baugsmálsins sem bíður nú aðalmeðferðar. Meðal annars vitnaði Sigmar í lögregluskýrslur þar sem segir: "Niels segir Tryggva hafa óskað eftir því að Niels gæfi lögreglu ranga skýringu á tilurð kreditreikningsins ef lögregla kæmi til með að spyrja hann út í þennan kreditreikning. Þannig hefði Tryggvi komið með þær tilhæfulausu skýringar að þessi kreditreikningur tengdist sameiginlegum innkaupum á kaffi frá Kraft. Niels kveðst hafa gefið honum vilyrði fyrir því að gefa lögreglu þær skýringar. Hann kveðst því í upphafi þessarar skýrslutöku hafa farið að óskum Tryggva og ætlað að skýra ranglega frá tilurð kreditreikningsins.

Sagan gekk ekki upp

Niels kveðst hins vegar hafa áttað sig á því við yfirheyrsluna að sú saga gekk hreinlega ekki upp og talið best að segja satt og rétt frá."

Sigmar sagði Tryggva hafa vísað þessu á bug við yfirheyrslurnar og alltaf hafa gefið þá skýringu að reikningurinn hefði verið vegna kaffiviðskipta við Aðföng, innkaupafyrirtæki Baugs.

Einnig var tekinn fyrir í Kastljósþættinum sá kreditreikningur sem Jón Gerald útbjó sjálfur frá fyrirtæki sínu Nordica, að sögn sem greiða fyrir Tryggva Jónsson. Jón Gerald sagðist í þættinum ekki telja sig hafa brotið lög með því að hafa gefið út tilhæfulausan reikning. "Ég tel að ég hafi ekki brotið lög með því, því ég vissi ekki hvað menn voru að gera með þennan reikning," sagði Jón Gerald og svaraði því til að hann hefði ekki spurt út í reikninginn "[v]egna þess að á þessum tíma voru þeir með kverkatak á Nordica. Það var búið að stilla mér þarna upp við vegg. Það var búið að koma mér í rosalega slæm mál og ég var að vinna með Tryggva til þess að leysa þetta mál", sagði Jón Gerald Sullenberger.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert