Yfirlýsing Jóns Ásgeirs vegna fréttar Morgunblaðsins

mbl.is/Kristinn

Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs Group hf., hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna fréttar Morgunblaðsins á forsíðu blaðsins í dag, þar sem fjallað er um rannsókn á meintum skattalagabrotum hans.

Yfirlýsingin er svohljóðandi:

Ég fékk endurálagningu vegna áranna 1998-2003 að upphæð um 66 milljónir króna í byrjun ársins. Sú endurálagning nær til sömu þátta og ég var boðaður til skýrslutöku vegna hjá embætti Ríkislögreglustjóra með boðunarbréfi sl. þriðjudag. Umrædd greiðsla hefur þegar verið greidd til skattayfirvalda. Um leið hefur málið verið kært til yfirskattanefndar þar sem málið er til umfjöllunar og er niðurstöðu að vænta í haust.

Lögmenn mínir telja að umrædd upphæð verði endurgreidd þegar niðurstaða yfirskattanefndar liggur fyrir. Ég greiði alla mína skatta og gjöld á Íslandi og hef ávallt gert. Ég hef verið meðal stærstu skattgreiðenda hér á landi og greiddi á síðasta ári um 98 milljónir í ríkissjóð. Ég skorast ekki undan þeirri ábyrgð minni og er stoltur af því að greiða mína skatta hér á landi og mun áfram gera.

London, 22. júní 2006.

Jón Ásgeir Jóhannesson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert