Jón Gerald Sullenberger í viðtali við Morgunblaðið um Baugsmálið: Vildu semja eftir réttarhöld í Flórída

Eftir Agnesi Bragadóttur agnes@mbl.is
JÓN Gerald Sullenberger segir að hann hafi óttast um líf sitt og fjölskyldu sinnar, í árslok 2001, þegar í hann var hringt og "óður maður, sem segist reka fylgdarþjónustu í Fort Lauderdale, sem hefur í slíkum hótunum við mig, að mér stóð alls ekki á sama og óttaðist bókstaflega um líf mitt og fjölskyldu minnar".

Maðurinn hringdi í Jón Gerald til þess að krefja hann um greiðslu á 19 þúsund dollara reikningi, vegna viðskipta sem Jón Ásgeir Jóhannesson hafði átt við manninn, en maðurinn taldi að Jón Gerald hefði átt í áðurnefndum viðskiptum, þar sem hann var skráður fyrir bátnum, Thee Viking.

Frá þessu greinir Jón Gerald m.a. í síðari hluta viðtalsins við Morgunblaðið, sem birt er í dag.

Jón Gerald upplýsti um hvað stæði á bak við áðurnefndan reikning í réttarhöldum í Flórída í júní 2003, að kröfu bandarísks lögmanns þeirra Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Kristínar Jóhannesdóttur og Jóhannesar Jónssonar, sem höfðuðu mál á hendur Jóni Gerald í Flórída.

"Í framhaldi af þessum réttarhöldum gerðist það heima á Íslandi, að Baugsmenn höfðu samband við Jón Steinar, lögmann minn, og óskuðu eftir að ganga til samninga við mig. Þeir óskuðu eftir því að ganga frá málum gagnvart Nordica, greiða það sem þeir skulduðu mér, sem samkvæmt minni málshöfðun heima á Íslandi var, að þeir gengju frá ógreiddum gámasendingum og að þeir bættu mér vanefndir. Einnig krafðist ég þess að þeir greiddu mér þann lögfræðikostnað, sem ég hafði orðið fyrir, vegna ofsókna þeirra á hendur mér hér í Bandaríkjunum. Þeir samþykktu þetta allt og gengu frá öllum málum, féllu frá málsókn hér í Bandaríkjunum, greiddu mér allar mínar kröfur á Íslandi og ég féll frá málsókn á Íslandi," segir Jón Gerald.

"Auðvitað gerði ég mér ekki hina minnstu grein fyrir því, þegar ég tók ákvörðun um að ákæra, hvers konar stórmál Baugsmálið ætti eftir að verða. Ég var ósköp einfaldlega maður í rekstri hér í Bandaríkjunum sem hafði verið svikinn í viðskiptum. Ég var að leita réttar míns og réttlætis," segir Jón Gerald.

"Frjálslega farið með staðreyndir"

JÓN Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, sendi frá sér yfirlýsingu um helgina vegna fyrri hluta viðtalsins við Jón Gerald Sullenberger þar sem hann segir m.a. að frjálslega sé farið með staðreyndir í viðtalinu "og ósannindum dælt yfir lesendur Morgunblaðsins með stríðsfyrirsögnum".

Jón Ásgeir segir það "rakinn þvætting" að tölvupóstum hafi verið skipulega eytt úr sinni tölvu, það sé hægt að sanna.

Sjá Morgunblaðið í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert