Ekki gefin út ný ákæra í Baugsmáli

Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari, afhendir verjendum gögn.
Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari, afhendir verjendum gögn. mbl.is/Júlíus

Sigurður Tómas Magnússon, sérstakur saksóknari í Baugsmálinu, hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé nægilegt tilefni til að gefa út nýja ákæru í stað eins ákæruliðar í endurákæru, sem dómstólar vísuðu frá í máli ákæruvaldsins gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs, og fleirum. Ákæruliðurinn snýr að kaupum á 10-11 verslununum.

Segir Sigurður Tómas í tilkynningu, að sakarefni samkvæmt þessum ákærulið hafi ekki fengið efnislega umfjöllun fyrir dómi eins og almennt verði að telja mikilvægt með tilliti til almannahagsmuna og hagsmuna sakbornings.

Þá segir, að samkvæmt 111. grein laga um meðferð opinberra mála skuli sérhver refsiverður verknaður sæta ákæru nema annað sé sérstaklega ákveðið í lögum. Þegar ákærandi taki ákvörðun um hvort sækja skuli mann til saka skuli hann líta til þess hvort það sem fram sé komið teljist nægilegt eða líklegt til sakfellis. Að gengnum dómsúrskurðum, bæði í Héraðsdómi Reykjavíkur og Hæstarétti þar sem ákæruliðnum var vísað frá, sé það mat ákæruvaldsins að dregið hafi svo úr líkum á að dómstólar muni sakfella ákærða, fyrir þau ætluðu brot, sem honum voru gefin að sök í fyrsta ákæruliðnum, að ekki sé nægilegt tilefni til að gefa út nýja ákæru vegna þeirra.

Í tilkynningunni segir, að Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs Group, hafi verið sent bréf þar sem þessi afstaða ákæruvaldsins er áréttuð en þar komi meðal annars fram, að þessi ákvörðun lúti einvörðungu að þeim ætluðu brotum, sem Jóni Ásgeiri hafi verið gefin að sök samkvæmt ákæruliðnum, sem vísað var frá, en hafi ekki áhrif á rannsókn, eða eftir atvikum saksókn, vegna annarra brota, sem enn kunni að vera til meðferðar hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, enda falli þau viðfangsefni utan umboðsskrár setts ríkissaksóknara.

Þá kemur fram, að þeir 18 ákæruliðir, sem eftir standi í málinu, bíði nú efnislegrar meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þessir ákæruliðir lúti m.a. að fjárdrætti, ólögmætum lánveitingum, meiri háttar bókhaldsbrotum og röngum tilkynningum um afkomu Baugs til Verðbréfaþings Íslands í þeim tilgangi að skapa rangar hugmyndir um hag félagsins og hafa áhrif á sölu eða söluverð hluta í því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert