Jökulsá á Fjöllum að meira og minna leyti komin í Skjálftavatn

Jökulsá á Fjöllum flæðir yfir stórt svæði í Kelduhverfi
Jökulsá á Fjöllum flæðir yfir stórt svæði í Kelduhverfi mbl.is/Hafþór

Sveinn Þórarinsson, bóndi í Krossdal, segir að litlar breytingar hafi orðið á straumi Jökulsár á Fjöllum frá því morgun, enn sé beljandi straumur úr ánni yfir í Skjálftavatn. Segir Sveinn að áin sé meira og minna komin í Skjálftavatn en Jökulsáin flæðir yfir mýrlendisgróður og sáningar á Vestursandinum.

„Skjálftavatnið er orðið eins og hafsjór en yfirborð þess hefur hækkað um einn metra," segir Sveinn.

Segir Sveinn að Skjálftavatnið sé búið að rífa sig yfir á Vestursandinn og er komið skarð í veginn norðan við Keldunes allt í Arnaneslón. Eftir endilöngu Kelduhverfinu, að sögn Sveins.

Segir hann að lítið sem ekkert sé hægt að gera að svo stöddu annað en að vonast eftir hláku. „Skarðið sem er komið í varnargarðinn er um 40-50 metrar á breidd og állinn sem fer þar í gegn er um tveir til þrír metrar á dýpt. Þannig að það er enginn smá vatnsflaumur sem fer þar í gegn. Þetta er náttúrulega með vatnsmeiri jökulsám á landinu," segir Sveinn.

Hann segist ekki telja að miklar skemmdir fylgi krapaelgnum, lítill straumur sé í ánni eftir að hún er komin í Skjálftavatnið enda það mjög stórt. Segir hann að þrír bæir séu einangraðir vegna skarðs í veginum en ekki er neinn búskapur á þeim bæjum. Þeir bæir sem um ræðir eru: Syðri Bakki, Þórseyri og Arnanes. Hins vegar sleppi Nýibær þar sem áin fer það utarlega í gegnum veginn þannig að hægt er að komast þangað. Allir bæirnir eru komnir í eyði en þar eru sumarhús og því vill Vegagerðin lítið gera, að sögn Sveins.

Sveinn segir að það eina sem hægt sé að gera í stöðunni eins og hún er nú er að loka fyrir rennslið í Skjálftavatn en það sé erfitt vegna straumsins í ánni. Hann segist hins vegar vona að það seytli eitthvað niður til sjávar eftir gamla farvegi Jökulsár á Fjöllum. Um fjögurra til fimm gráðu frost er í Kelduhverfinu.

Vegur í sundur í Kelduhverfinu
Vegur í sundur í Kelduhverfinu mbl.is/Hafþór
Sveinn Þórarinsson bóndi í Krossdal
Sveinn Þórarinsson bóndi í Krossdal mbl.is/Hafþór
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert