Sátt um að Margrét fari í leyfi fram að landsþingi

Guðjón Arnar Kristjánsson og Margrét Sverrisdóttir ræðast við á miðstjórnarfundinum …
Guðjón Arnar Kristjánsson og Margrét Sverrisdóttir ræðast við á miðstjórnarfundinum í dag. mbl.is/Sverrir

Sátt náðist um það á fundi miðstjórnar Frjálslynda flokksins nú í kvöld að Margrét Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri flokksins, fari í launað leyfi frá störfum sem framkvæmdastjóri fram að landsþingi flokksins sem fram fer í lok janúar. Hún mun þó áfram sinna ýmsum störfum fyrir flokkinn. Að fundinum loknum sögðu Margrét og Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður flokksins, gagnkvæma sátt ríkja um þessa niðurstöðu.

Guðjón Arnar sagði að á miðstjórnarfundinum hefði sáttanefnd lagt fram tillögur sínar. Þær hefðu verið ræddar fram og til baka og náðst sátt að því er varðaði störf og samskipti milli framkvæmdastjórans og forystunnar. Margrét yrði í leyfi að miklu leyti fram yfir landsþing, en myndi halda launum sínum og sinna ákveðnum verkefnum. Hvað síðan gerðist eftir landsþing ætti eftir að koma í ljós.

Margrét sagði að farið hefði verið mjög ítarlega yfir ágreiningsefnin og niðurstaða fundarins verið sú að setja niður deilur innan flokks í bili alla vega og undirbúa landsþingið. Óskað hefði verið eftir því að hún kæmi að undirbúningi þingsins sem ritari og fulltrúi í framkvæmdastjórn og einnig hafi hún verið beðin um að hafa fjármálin á sinni könnu.

Hún sagði að gert væri ráð fyrir að hún kæmi aftur að sínu starfi sem framkvæmdastjóri eftir landsþing nema að hún yrði orðin formaður eða varaformaður, því þá yrðu eðlilega allt aðrar forsendur uppi. Margrét sagðist ekki hafa gefið neitt upp um það hvort hún gæfi kost á sér í kjöri til formanns eða varaformanns og myndi ekki gera það í bráð. Hún ætlaði að nota tímann til að íhuga málin gaumgæfilega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert