Þrír einstaklingar ákærðir vegna samráðs olíufélaganna

mbl.is/Júlíus

Ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur Einari Benediktssyni, forstjóra Olíuverzlunar Íslands hf., Geir Magnússyni, fyrrverandi forstjóra Olíufélagsins hf., og Kristni Björnssyni, fyrrverandi forstjóra Skeljungs hf., vegna ætlaðra brota þeirra gegn samkeppnislögum framin í rekstri félaganna á árunum 1993 – 2001.

Eru þeir ákærðir fyrir að hafa haft ólögmætt samráð, ýmist sjálfir eða fyrir milligöngu undirmanna sinna, með það að markmiði að hafa áhrif á og koma í veg fyrir samkeppni milli félaganna með innbyrðis samningum og samstilltum aðgerðum í tengslum við gerð tilboða og við sölu á vörum til viðskiptavina þeirra, með því að skipta milli félaganna mörkuðum, og við ákvörðun söluverðs, afsláttar, álagningar og viðskiptakjara, auk þess að skiptast á ýmsum upplýsingum um viðskipti þeirra og hegðun á markaði.

Ákæran er í 27 töluliðum og eru ætluð brot talin varða við a. og c. liði 2. mgr. 10. gr., sbr. 1. mgr. 42. gr. samkeppnislaga, sem sett voru árið 2005, og samkvæmt eldri samkeppnislögum við a. – c. liði 1. mgr. 10. gr., sbr. 1. mgr. 57. gr. samkeppnislaga frá árinu 1993.

Farm kemur í tilkynningu frá skrifstofu ríkissaksóknara, að mál verði ekki höfðað gegn öðrum þeim, sem nutu stöðu sakborninga í tengslum við rannsókn málsins og mun þeim berast staðfesting embættisins á þeirri niðurstöðu á næstu dögum. Sama gildi um félögin sjálf sem sætt hafa stjórnvaldssektum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert