Laun og bifreiðakostnaður bæjarstjóra lækka um 350 þúsund í Árborg

Ragnheiður Hergeirsdóttir, nýr bæjarstjóri í Árborg
Ragnheiður Hergeirsdóttir, nýr bæjarstjóri í Árborg

Bæjarráð Árborgar staðfesti á fundi í dag ráðningarsamning við bæjarstjóra Árborgar, Ragnheiði Hergeirsdóttur. Í fréttatilkynningu frá meirihlutanum, sem samanstendur af B, S og V lista, segir að samningurinn feli í sér umtalsverða lækkun mánaðarlegs kostnaðar vegna stöðu bæjarstjóra fyrir sveitarfélagið. Annars vegar er um að ræða lækkun launakostnaðar og hins vegar bifreiðakostnaðar, samtals um 350.000 kr. á mánuði.

„Með þessu móti sparast hátt í 15 milljónir króna á þeim tíma sem eftir er af kjörtímabilinu. Auk þess gerir samningurinn ráð fyrir að uppsagnarfrestur núverandi bæjarstjóra, hætti hann störfum á kjörtímabilinu, sé 6 mánuðir en ekki 12 eins og var í samningi við Stefaníu Katrínu Karlsdóttur,” segir í fréttatilkynningunni og greint er frá á vefnum sudurland.is.

Sagt er að kjör núverandi bæjarstjóra séu í samræmi við það sem tíðkast annars staðar á landinu og sambærileg kjörum bæjarstjóra Árborgar á síðasta kjörtímabili.

„Einar Njálsson, fyrrverandi bæjarstjóri, hætti störfum um miðjan júlí 2006 og átti hann þá 5 mánaða biðlaunarétt auk sumarleyfis. Launagreiðslum til hans lýkur um miðjan febrúar n.k.. Stefanía Katrín Karlsdóttir á biðlaunarétt í 12 mánuði frá 1. janúar s.l.. Kostnaðaraukning sveitarfélagsins vegna bæjarstjóra verður um 4,3 m. kr. á kjörtímabilinu umfram það sem verið hefði ef ekki hefði komið til uppsagnar á ráðningarsamningi við Stefaníu Katrínu Karlsdóttur,” segir í fréttatilkynningu sem bæjarfulltrúar B, S og V lista í Árborg skrifa undir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert