Tillögur um aukna ráðgjöf fyrir heyrnarlausa

Eftir Guðna Einarsson

gudni@mbl.is

RÁÐGJAFAR Félags heyrnarlausra gerðu nýlega tillögur til félagsmálaráðuneytis um aðgerðir til stuðnings þeim sem óhjákvæmilega myndu leita til félagsins eftir að niðurstöður rannsóknar á kynferðislegu ofbeldi í samfélagi heyrnarlausra yrðu kynntar. Þar var bæði átt við þolendur slíks ofbeldis og þá sem hefðu orðið vitni að því. Sem kunnugt er hafa Rannsóknir og greining, í samvinnu við Félag heyrnarlausra og félagsmálaráðuneytið, unnið að rannsókninni og birt bráðabirgðaniðurstöður þar sem fram kemur m.a. að þriðjungur svarenda hafi orðið fyrir slíku ofbeldi.

Samkvæmt upplýsingum frá Þór Jónssyni, upplýsingafulltrúa félagsmálaráðuneytisins, hafði ráðuneytið forgöngu um að Félag heyrnarlausra fengi styrk til að láta gera könnunina. Ráðuneytið hefur átt fundi með fulltrúum félagsins og beðið um hugmyndir um aðkomu stjórnvalda, eða annarra að verkefnum, þjónustu eða úrræðum sem niðurstöður könnunarinnar gætu gefið tilefni til. Ráðuneytið segir að í því sambandi beri að taka tillit til þess að í mörgum tilvikum sé um að ræða atburði sem gerðust fyrir mörgum árum og áratugum.

Ráðgjafar félagsins leggja m.a. til að aðgengi heyrnarlausra að ráðgjöfum verði eflt. Tveir ráðgjafar starfa hjá félaginu, fíkni- og fjölskylduráðgjafi í hálfu starfi og ráðgjafi og upplýsingafulltrúi í fullu starfi. Talið er að hugsanlega þurfi að bæta við fagaðilum tímabundið. Tryggja þarf að fólk geti sótt ráðgjöfina annað en í húsnæði Félags heyrnarlausra því mörgum muni þykja óþægilegt að geta ekki komið öðruvísi en að aðrir félagsmenn séu á staðnum.

Mikilvægt er að efni skýrslunnar verði kynnt í litlum hópum í samfélagi heyrnarlausra og brýnt fyrir félagsmönnum að leita sér aðstoðar telji þeir hennar þörf. Eins er talið nauðsynlegt að starfsmenn félagsins geti aðstoðað fjölskyldur heyrnarlausra og að félagsmenn, t.d. þeir sem búa úti á landi, geti leitað til ráðgjafa með hjálp tölvusamskipta.

Í hnotskurn
» Til greina kemur að styrkja starfsemi Stígamóta til að annast heyrnarlausa þolendur kynferðisofbeldis.
» Talin er mikil þörf á öflugu forvarnarstarfi og er m.a. horft til menntunar starfsfólks í forvörnum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert