Atvinnuleysi 1,3% í janúar

Atvinnuleysi í janúar mældist 1,3% samkvæmt yfirliti Vinnumálastofnunar en var 1,2% í desember. Atvinnuleysi hefur farið hægt vaxandi á undanförnum mánuðum en það er töluvert minna en á sama tíma fyrir ári þegar það var 1,6%. Vinnumálastofnun segir, að atvinnuástandið breytist yfirleitt lítið frá janúar til febrúar og því sé líklegt að atvinnuleysið í febrúar verði á bilinu 1,2%-1,4%.

Atvinnuleysi jókst aðallega á landsbyggðinni en litlar breytingar voru á höfuðborgar­svæðinu. Mest jókst atvinnuleysi í mánuðinum á Norðurlandi vestra, Suðurlandi, Vesturlandi og á Suðurnesjum, en litlar breytingar urðu annars staðar.

Útgefnum atvinnuleyfum til erlendra ríkisborgara fækkaði talsvert á síðasta ári samanborið við metárið 2005. Í ½5 fréttum Greiningardeildar Kaupþings segir, að athygli veki, að leyfum til sérhæfðra starfsmanna fjölgi á hinn bóginn mjög milli ára eða úr 5 í 45. Séu heildartölur áranna skoðaðar sjáist að fækkunin sé hins vegar 881 milli ára eða tæp 14%. Samdrátturinn milli janúar og desember sé enn meiri eða 62% en aðeins 254 atvinnuleyfi voru gefin út í janúar. Hins vegar sé óljóst hvort þetta bendi til þess að aukin ró færist brátt yfir vinnumarkaðinn þar sem þó nokkuð gæti orðið um opinberar framkvæmdir á árinu.

Yfirlit Vinnumálastofnunar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert