Vart við olíu við Hvalsnes

Gunnar Þór Hallgrímsson, líffræðingur, skoðar olíublautan fugl í dag.
Gunnar Þór Hallgrímsson, líffræðingur, skoðar olíublautan fugl í dag. mbl.is/ÞÖK

Olía hafa sést við Hvalsnes, en ekki liggur fyrir hvort olían hafi lekið úr strandaða flutningaskipinu Wilson Muuga. Að sögn Sveins Kára Valdimarssonar, forstöðumanns Náttúrustofu Reykjaness, hafa frá því á laugardag fundist yfir 200 olíusmitaðir fuglar á svæðinu. Sveinn vill ekkert fullyrða um hvort olían komi frá Wilson Muuga, en segir verið sé að rannsaka olíulekann.

Sveinn segist hafa farið að kanna með fugla á sl. laugardag og þá hafi hann fundið á bilinu 150-200 olíusmitaða fugla. Í gær hafi u.þ.b. 20 fundist og það sama hafi sést í dag. Hann segist hafa fengið upplýsingar frá Umhverfisstofnun að eitthvað gæti verið af olíu í tjörn skammt frá Wilson Muuga. „Við fórum þangað og þar var olía í þarabingjum, sem hafa skolað á land yfir brimgarðinn,“ sagði hann í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins og bætti því við að sú tjörn hafi verið mikið sótt af fuglum.

Sveinn segir að það sé stefnt að því að hreinsa tjörnina á morgun. „Ég get ímyndað mér að þetta verði nokkrir vagnar af olíumettuðu þangi,“ segir hann.

„Við erum að sjá um 10 tegundir af fuglum sem eru með olíu á sér. Þarna í þessum þarabingjum getum við hugsanlega útskýrt sendlinga sem við sáum, mögulega æðarfugl. En það er erfitt að útskýra hvers vegna við sáum olíu í mávum.“

„Við vorum eiginlega búin að afskrifa það að þetta gæti verið frá Wilson Muuga,“ segir Sveinn. Þá segir hann að ef ástandið sé með þessum hætti víðar þá verði að rannsaka málið frekar, og búast megi við að það verði gert á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert