Kaupmáttaraukning eða verðbólguskattar?

Afar ólík sýn kom fram í umræðum utan dagskrár á Alþingi í dag á þróun kaupmáttar almennings. Þingmenn stjórnarflokkanna sögðu, að undanfarin kjörtímabil væru eitt mesta samfellda hagvaxtarskeið í sögu landsins og kaupmáttur ráðstöfunartekna hefði aukist meira hér en í flestum öðrum löndum. Þingmenn stjórnarandstöðunnar töluðu hins vegar um fátækraskatta og verðbólguskatta, sem ríkisstjórnin bæri ábyrgð á.

Guðjón Ólafur Jónsson, þingmaður Framsóknarflokks, hóf umræðu utan dagskrár í dag um aukinn kaupmátt almennings og sagði að síðustu þrjú kjörtímabil væri mesta hagvaxtarskeið sem um geti á Íslandi og allir hefðu notið góðs af því, bæði tekjuháir og tekjulágir.

Hann sagðist sakna þess, að þingmenn stjórnarandstöðunnar hefðu ekki gert rannsóknir Ragnars Árnasonar, prófessors, að umtalsefni en samkvæmt niðurstöðum hans hefði íslenskt efnahagslíf tekið stakkaskiptum frá árinu 1993 og atvinnutekjur allra hópa hefðu hækkað mjög mikið og dreifing þeirra hefði ekki breyst.

Sagði Guðjón Ólafur, að þetta væri blaut tuska framan í andlit stjórnarandstöðunnar, sem hefði haldið því fram að ójöfnuður hefði aukist og hinir tekjulægstu hefðu setið eftir.

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sagði að nýlegar tölur sýndu að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefði aukist um 52% á tímabilinu frá 1994 til 2005. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefði aukist um rúmlega 5% á árinu 2006 og áætlað er að hann aukist um 4,6% á yfirstandandi ári.

Athyglisvert væri, að innan OECD hefur kaupmáttur ráðstöfnunartekna aukist á sama tímabili um rúmlega 20% að meðaltali og 35% að meðaltali á hinum Norðurlöndunum.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar sögðu hins vegar að ójöfnuðurinn hefði þvert á móti stóraukist. Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingar, sagði að hér ríkti engilsaxneskur ójöfnuður þar sem barnabætur hefðu rýrnað á 10 árum að verðgildi og sömuleiðis skattleysismörk, sem væri hinn eiginlegi fátækraskattur.

Björgvin sagði, að það sem væri þó mest sláandi snéri að unga fólkinu og húsnæðiskaupum. Sagði Björgvin, að sá sem tæki 15 milljóna króna lán til 40 ár á Evrópuvaxtakjörum greiddi 24 milljónir til baka þegar upp var staðið en íslenski lánþeginn greiddi 74 milljónir á 40 árum. Þetta væri verðbólguskatturinn sem íslenskir fasteignakaupendur greiddu.

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, sagði að réttara væri að spyrja: Er auðveldara nú en fyrir 15 árum að vera tekjulágur án húsnæðis eða veikur?

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert