Ekki heimilt að innheimta gjald fyrir endurnýjun einkanúmers

Innheimta gjalds fyrir endurnýjun einkanúmers skortir lagastoð, að mati umboðsmanns …
Innheimta gjalds fyrir endurnýjun einkanúmers skortir lagastoð, að mati umboðsmanns Alþingis. mbl.is/Ásdís

Umboðsmaður Alþingis telur, að Umferðarstofu sé ekki heimilt að innheimta sérstakt gjald þegar einkanúmer ökutækja eru endurnýjuð. Vísar umboðsmaður einnig til þess í áliti sínu, samkvæmt lögum um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda beri stjórnvöldum að endurgreiða fé, sem ofgreitt sé ásamt vöxtum.

Kvartað var til umboðsmanns vegna innheimtu Umferðarstofu á sérstöku gjaldi fyrir endurnýjun einkanúmers. Umferðarstofa vísaði til reglugerðar um skráningu ökutækja þar sem segir að rétturinn til einkamerkis fáist ekki endurnýjaður að átta árum liðnum frá veitingu þess nema gegn greiðslu gjalds að sömu fjárhæð og lögum samkvæmt var greitt fyrir merkið í upphafi. Slíkt gjald er nú 25 þúsund krónur samkvæmt gjaldskrá Umferðarstofu.

Umboðsmaður segist í álitinu telja ljóst, að löggjafinn hafi með ákvæði í umferðarlögum tekið þá ákvörðun að gjald vegna einkamerkis skyldi bundið við ákveðna fasta fjárhæð án þess að sú fjárhæð væri í efnislegum tengslum við þann kostnað sem Umferðarstofa bæri vegna skráningar einkamerkja og umsýslu. Ljóst sé, að gjald fyrir einkamerki hafi byggst á sjónarmiðum um aukna tekjuöflun ríkissjóðs og hafi því fremur samstöðu með sköttum en þjónustugjöldum.

Umobðsmaður segir, að innheimta gjaldsins verði að uppfylla þær kröfur sem gerðar séu til lagaheimilda innheimtu skatta í stjórnarskrá. Er það niðurstaða umboðsmanns, að þar sem fyrirmæli um gjaldskyldu gjalds fyrir einkanúmer að liðnum átta árum verði ekki leidd af ákvæðum umferðarlaga, sé ekki fullnægjandi lagaheimild fyrir skilyrði reglugerðarinnar um greiðslu gjalds fyrir endurnýjun réttinda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert