Íslensk auglýsing kærð til sænskrar siðanefndar

Íslenska fyrirtækið Nordic Photos hefur verið kært til siðaráðs sænskra atvinnulífsins, sem fjallar sérstaklega um kynjamisrétti í auglýsingum (ERT). Er kæran lögð fram vegna auglýsingar sem sýnir sænskan kaupsýslumann umvafinn fáklæddum konum á bar í Taílandi.

Fram kemur á sænska fréttavefnum The Local, að myndin í auglýsingunni sé tekin af hollenska ljósmyndaranum Paul van Rield og fengin úr myndabanka Nordic Photos. Með henni fylgir síðan textinn: „Sænskir yfirmenn hafa meiri alþjóðlega reynslu en nágrannar þeirra á Norðurlöndum.

Á vefnum er haft eftir Arnaldi Gauta Johnson, framkvæmdastjóra Nordic Photos, að hin hörðu viðbrögð sem borist hafi við auglýsingunni hafi komið honum og samstarfsfólki hans á óvart. „Í fyrsta lagi þykir okkur mjög leitt að hafa móðgað fólk. Auglýsingunni var ætlað að gera góðlátlegt grín að staðalímyndum og átti alls ekki að skaða neinn,” segir hann. Þá segir hann að um hafi verið að ræða lokaða auglýsingaherferð, sem náði til um 3.000 einstaklinga í fjölmiðlaheiminum.

Samkvæmt upplýsingum frá Arnaldi hafa 10 kvartanir borist til fyrirtækisins frá þeim sem fengu auglýsinguna senda en ein kona kærði málið til siðanefndarinnar.

Jan Fager, ritari ERT staðfestir að kærur hafi borist vegna auglýsingarinnar og segir kærendur telja auglýsinguna hlutgera konur og gefa í skyn að kaupsýslumenn séu líklegir kaupendur kynlífsþjónustu. Þá segir hann úrskurðar í málinu vera að vænta í síðasta lagi í apríl.

ERT er sjálfstæð stofnun, sem hefur starfað hefur frá árinu 1988. Stofnunin tekur mið af alþjóðlegum siðareglum auglýsenda í úrskurðum sínum en hefur þar að auki bætt við sérstökum ákvæðum gegn kvenfyrirlitningu og mismunun á grundvalli kynferðis.

Frétt The Local

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert