Fastráðnum starfsmönnum í Bláfjöllum og Skálafelli sagt upp

Frá Bláfjöllum á góðum skíðadegi.
Frá Bláfjöllum á góðum skíðadegi. mbl.is/ Brynjar Gauti

Anna Kristinsdóttir, formaður stjórnar skíðasvæðanna hjá Reykjavíkurborg, segir ákveðnar skipulagsbreytingar væntanlegar á rekstri skíðasvæðanna í Bláfjöllum og Skálafelli og því verði sex fastráðnum starfsmönnum skíðasvæðisins sagt upp störfum. Ekki hafi verið ákveðið enn hvernig rekstrinum verður háttað, til dæmis hvort ráðinn verði framkvæmdastjóri svæðanna eða rekstrar- og þjónustustjóri.

Anna nefnir meðal annars að fastráðinn matráðsmaður hafi verið allan ársins hring í Bláfjöllum og skoða þurfi hvort þörf sé á því. „Við byrjuðum í haust að fara í gagngera skoðun á allri þróun og viðhaldi og öllum kostnaði sem liggur að baki rekstrinum á skíðasvæðunum. Þessi skoðun leiddi í ljós að við verðum að gera ákveðnar áherslubreytingar,“ segir Anna.

Ekki hefur enn verið ákveðið hversu marga starfsmenn þurfi eða hversu mörg stöðugildi. Það hafi verið skoðað miðað við það viðhaldsstarf sem fram fer yfir sumartímann. „Það er auðvitað alltaf nauðsynlegt í opinberum rekstri að fara yfir þessa þætti vegna þess að forsendurnar breytast. Ef við horfum á síðastliðin tíu ár í þróun á opnunartíma, þá sjáum við ákveðnar breytingar. Háannatíminn var á árum áður í kringum jól og áramót en nú er hann í kringum páska.“

Anna segir að nú þurfi að horfa á reksturinn með öðrum hætti en gert hefur verið hingað til. Ellefu sveitarfélög koma að rekstrinum og hafa gert samning um hann fram að næstu áramótum. „Það vantar ákveðin tengsl inn í bæjarfélögin, betri upplýsingagjöf og annað slíkt og við erum fyrst og fremst að taka á því. Ég held að það sé bara af hinu góða en auðvitað er alltaf sárt að segja starfsmönnum upp,“ segir Anna.

Ákveðið var af fyrri stjórn að kaupa nýja skíðalyftu í Kóngsgil og var það gert. Anna segir að nú standi menn frammi fyrir því að búið sé að fjárfesta í því að koma fólki upp í fjallið en nú þurfi að koma því niður aftur. Aðspurð um hvort ekki eigi að kaupa snjóvél segir Anna að það sé sveitarfélaganna að ákveða. Næsta verk stjórnar skíðasvæðanna sé að fá sveitarfélögin til að halda áfram rekstri skíðasvæðanna og það geti tekið þó nokkurn tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert