Lagafrumvarp nefndar um jafna stöðu og rétt kvenna og karla kynnt

Samkvæmt frumvarpinu skal jafnréttisumsögn fylga öllum stjórnarfrumvörpum á Alþingi
Samkvæmt frumvarpinu skal jafnréttisumsögn fylga öllum stjórnarfrumvörpum á Alþingi mbl.is/ÞÖK

Lagafrumvarp nefndar um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla var kynnt í dag en frumvarpinu er ætlað að stuðla frekar að jafnrétti kynjanna og eru þar lagðar til umtalsverðar breytingar til að auka skilvirkni og efla úrræði.

Helstu nýmæli frumvarpsins eru þau að lagt er til að Jafnréttisstofa fái heimild til að krefja opinberar stofnanir, sveitarfélög, atvinnurekendur og félagasamtök um allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna verkefna hennar og athugunar á einstökum málum. Verði upplýsingar ekki veittar er lagt til að heimilt sé að leggja á dagsektir. Ráðherra setur nánari ákvæði um sektargreiðslur í reglugerð. Þá er lagt er til að kærunefnd fái heimild til að kveða upp bindandi úrskurði.

Einnig eru lögð til ýmis nýmæli að því er varðar málsmeðferð fyrir kærunefnd, svo sem um fresti til að kæra mál og kveða upp úrskurð. Þá eru þar ákvæði um að nefndin geti ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar með nánar tilteknum skilyrðum og geti einnig ákveðið að sá sem kæra beinist gegn greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi og sé kæra bersýnilega tilefnislaus geti nefndin úrskurðað kæranda til að greiða málskostnað. Jafnframt er lagt til að gjafsókn verði veitt kæranda sem unnið hefur mál fyrir kærunefnd jafnréttismála ef gagnaðili hefur höfðað mál til ógildingar úrskurðinum.

Í frumvarpinu er til að fjölgað verði í Jafnréttisráði og að verkefni ráðsins verði ákveðin í þingsályktun um áætlun í jafnréttismálum sem félagsmálaráðherra leggur fyrir Alþingi. Þá er einnig lagt til að ráðið taki þátt í undirbúningi jafnréttisþings sem haldið verði á tveggja ára fresti.

Lagt er til að jafnréttisáætlunum fyrirtækja sem hafa 25 starfsmenn eða fleiri fylgi framkvæmdaáætlun um þau atriði sem vinna skal að til að ná fram jafnrétti kynjanna á vinnustaðnum. Þessar áætlanir skal endurskoða á þriggja ára fresti og gefa skýrslu til Jafnréttisstofu um framgang mála. Verði þessu ekki sinnt sé heimilt að leggja dagsektir á viðkomandi fyrirtæki en ráðherra setji nánari ákvæði um sektirnar í reglugerð.

Lagt er til að launamanni sé hvenær sem er heimilt að veita þriðja aðila upplýsingar um laun eða önnur starfskjör sín og að menntamálaráðherra ráði jafnréttisráðgjafa sem fylgi eftir ákvæðum 21. gr. frumvarpsins um menntun og skólastarf og veiti ráðgjöf í jafnréttismálum.

Varðandi tilnefningar í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga er lagt til að skylt sé að tilnefna bæði karl og konu og skipunaraðili gæti þess að hlutfall hvors kyns verði sem jafnast og ekki minna en 40% (þriðjungur í þriggja manna nefndum).

Þá er lagt til að taka skuli mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starf samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verði annars að komi að gagni í starfinu þegar meta skal hvort ákvæði frumvarpsins hafi verið brotin.

Að lokum er lagt til að jafnréttisumsögn fylgi öllum stjórnarfrumvörpum á Alþingi.

Nefndin var skipuð af félagsmálaráðherra sumarið 2006 í tilefni af því að 30 ár voru liðin frá því að jafnréttislög tóku gildi. Um er að ræða þverpólitíska nefnd undir forystu Guðrúnar Erlendsdóttur, fyrrverandi hæstaréttardómara, og var henni falið að endurskoða efni laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Umboð nefndarinnar til endurskoðunar laganna var rúmt, en lögð var áhersla á samráð við samtök á vinnumarkaði, Kvenréttindafélag Íslands og aðra aðila sem láta sig jafnréttismál varða. Við gerð frumvarpsins hafði nefndin sérstaklega til hliðsjónar lög og skipan jafnréttismála annars staðar á Norðurlöndum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert