Náttúruverndarsamtök Íslands kæra framkvæmdaleyfi í Heiðmörk

Stórir skurðir hafa verið grafnir í gegnum Þjóðhátíðarlundinn í Heiðmörk.
Stórir skurðir hafa verið grafnir í gegnum Þjóðhátíðarlundinn í Heiðmörk. mbl.is/RAX

Náttúruverndarsamtök Íslands hafa sent úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála kæru vegna framkvæmdaleyfis vegna lagningu vatnslagnar frá Vatnsendakrikum um Heiðmörk innan lögsögu Reykjavíkurborgar. Vilja samtökin að framkvæmdaleyfið verði ógilt og að allar frekari framkvæmdir við vatnslögnina verði stöðvaðar þar til nefndin hefur kveðið upp úrkurð sinn.

Vísað er til þess, að Reykjavíkurborg hafi þann 7. mars veitt framkvæmdaleyfi vegna vatnslagnarinnar en með framkvæmdaleyfinu sé Kópavogsbæ og framkvæmdaaðila á hans vegum veitt heimild til að leggja vatnslögn gegnum umrætt svæðið.

Náttúruverndarsamtökin segja, að þessi framkvæmd þessi sé háð breytingu á aðalskipulagi en sú breyting hafi ekki átt sér stað. Skipulagsyfirvöldum sé skylt, að kynna áætlaðar breytingar á aðalskipulagi og gefa þeim sem telja sig hafa hagsmuna að gæta tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum.

„Með því að framkvæmdaleyfi er gefið út með þeim hætti sem nú hefur verið gert, án nauðsynlegra breytinga á aðalskipulagi og þar með án tilskilinnar málsmeðferðar, er hafður af borgurunum þeirra lýðræðislegi og lögbundni réttur til þátttöku í skipulagsferlinu. Í því samhengi skiptir engu að Reykjavíkurborg hefur, í samningi frá 15. september 2006, skuldbundið sig til að samþykkja þær breytingar á svæðis- og aðalskipulagi borgarinnar, sem nauðsynlegar teljast samkvæmt þeim samningi. Reykjavíkurborg getur ekki á slíkan hátt samið sig frá lögbundnum skyldum sínum," segir m.a. í kærubréfinu.

Þar kemur fram, að í Heiðmörk hafi nú þegar átt sér stað töluvert umhverfisrask vegna umræddra framkvæmda og muni það verða meira, verði framkvæmdunum áfram haldið. Stórir skurðir hafi verið ruddir með tilheyrandi spjöllum, m.a. á svokölluðum Þjóðhátíðarlundi. Náttúruverndarsamtök Íslands kærðu þessar framkvæmdir til lögreglu höfuðborgarsvæðis þann 21. febrúar s.l.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert