Uppbyggingu elsta húss miðborgar Reykjavíkur lokið

Aðalstræti 10.
Aðalstræti 10. mbl.is/ÞÖK

Skrifað var í dag undir samninga um Aðalstræti 10, sem er elsta hús í miðborg Reykjavíkur, og leigusamning um hluta þess húss. Sem tákn um verklok enduruppbyggingar hússins festu borgarstjóri og stjórnarformaður Minjaverndar upp skjöld þar sem fram koma upplýsingar um húsið.

Aðalstræti 10 var reist árið 1762, og er því elsta húsið í miðborg Reykjavíkur, en Viðeyjarstofa er elsta hús Reykjavíkur og var reist árið 1755.

Í upphafi var Aðalstræti 10 notað sem klæðageymsla en síðar jafnframt íbúð fyrir bókara og bókhald Innréttinganna. Árið 1807 eignaðist Geir Vídalín biskup húsið en árið 1823 keypti konungur það að biskupi látnum. Meðal þeirra sem hafa átt aðsetur í húsinu er Jón Sigurðsson forseti en bróðir hans Jens bjó þar. Matthías Johannesen faktor keypti húsið árið 1873 og bjó þar þangað til því var breytt í sölubúð árið 1889. Árið 1894 eignaðist Helgi Zoëga kaupmaður húsið en kaupmennirnir Silli og Valdi keyptu það árið 1926 og ráku þar verslun í áratugi. Frá árinu 1984 hafa ýmsir veitingastaðir og krár verið reknar í húsinu. Reykjavíkurborg keypti það árið 2001.

Á neðri hæð gamla hússins mun Reykjavíkurborg verða með aðstöðu til sýningarhalds þar sem hægt verður að kynna sögu hússins og götunnar. Að baki gamla húsinu hefur verið byggt nýtt steinhús, af svipaðri stærð og lögun og það gamla, og húsin tengd með glerskála. Þessi viðbót eykur mjög á notkunar möguleika staðarins. Hópur íslenskra hönnuða og fjárfesta hafa tekið höndum saman og stofnað fyrirtæki og hyggjast opna þar verslun til að selja íslenska hönnunarvöru. Markmiðið er að koma á framfæri á einum stað í Reykjavík íslenskri hönnun í hæsta gæðaflokki..

Endurgerð götumyndar Aðalstrætis hófst árið 1998 með því að Ísafoldarhúsið var tekið niður og byggt upp að Aðalstræti 12. Síðan hefur verið lokið við endurgerð Aðalstrætis 2 sem hýsir meðal annars Höfuðborgarstofu og endurgerð Aðalstrætis 16 sem hýsir Hótel Reykjavik Centrum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert