Hefur eftir Jóni Steinari að þrýst hafi verið á hann

Ingibjörg S. Pálmadóttir, sambýliskona Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún ítrekar þau orð sín í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær, að Jón Steinar Gunnalaugsson hafi sagt henni að margir hefðu þrýst á sig að taka að sér mál Jóns Geralds Sullenberger, en Jón Steinar var þá lögmaður Ingibjargar.

Yfirlýsing Ingibjargar er eftirfarandi.

    Það var mér erfið lífsreynsla, haustið 2002, þegar lögreglan reyndi að handtaka sambýlismann minn Jón Ásgeir Jóhannesson og gerði húsleit hjá Baugi, fyrirtækinu sem hann hafði stýrt og byggt upp.

    Í kjölfarið bárust út í þjóðfélagið sögur um alvarlega glæpi sem Jón Ásgeir átti að hafa drýgt sem forstjóri Baugs. Ekki bætti úr skák að stuttu síðar frétti ég að til þessara aðgerða hefði verið gripið eftir að lögmaður minn Jón Steinar Gunnlaugsson, núverandi hæstarréttardómari, hafði afhent lögreglu gögn og borið fram kæru Jóns Geralds Sullenberger á hendur Jóni Ásgeiri og samstarfsmönnum hans. Mér sárnaði að maður sem gegndi trúnaðarstarfi fyrir mig og ég taldi mig geta treyst skyldi á sama tíma standa að slíkum aðgerðum gegn fjölskyldu minni.

    Af því tilefni gekk ég á fund Jóns Steinars og spurði hann hvernig þetta hefði getað gerst. Það varð fátt um svör en þó gat hann þess að margir hefðu þrýst á sig að taka að sér mál Jóns Geralds Sullenberger. Mér sýnast gögn sem síðar hafa komið í ljós sýna að þrýstingurinn hafi stafað frá Styrmi Gunnarssyni, Kjartani Gunnarssyni og sennilega ónefnda manninum, sem tryggð Jóns Steinars við er sögð innmúruð og ófrávíkjanleg.

    Mér finnst sorglegt að hæstaréttardómari sendi frá sér yfirlýsingu eins og þá sem Jón Steinar sendi fjölmiðlum í gær. Síðustu skilaboð hans til mín höfðu komið frá systur minni Lilju, sem bar mér þau orð Jóns Steinars að þennan raft, Jón Ásgeir, skyldi ég losa mig við sem fyrst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert