Blönduósbær gagnrýnir áform um flutning hringvegarins

Frá Blönduósi.
Frá Blönduósi.

Bæjarráð Blönduósbæjar gerir alvarlegar athugasemdir við áform um að færa hringvelinn suður fyrir Blönduós þannig að hann liggi norðan Svínavatns. Þessi áform voru sett fram í tillögu til samgönguáætlunar fyrir árin 2007 til 2018, sem lögð var fram á Alþingi nú í mars en ekki afgreidd áður en þingi var frestað.

Í umsögn, sem bæjarráð Blönduóss sendi samgöngunefnd Alþingis, eru ítrekuð fyrri mótmæli bæjarstjórnarinnar og áréttað mikilvægi þess að þjóðvegur nr. 1 tengi saman byggðarkjarna eins og kostur er enda geti hann einungis með því móti þjónað hlutverki sínu sem lífæð samfélagsins.

„Það er bjargföst skoðun Húnvetninga að færsla vegarins hefði í för með sér neikvæð samfélagsleg áhrif á svæðinu. Að gera ráð fyrir framkvæmdinni er því að okkar mati í hróplegu ósamræmi við eitt af meginmarkmiðum áætlunarinnar sjálfrar um jákvæða byggðarþróun," segir í umsögn bæjarráðsins.

Einnig er bent á, að hugmyndir um færslu vegarins falli engan veginn að gildandi svæðisskipulagi Austur-Húnavatnssýslu. Slíkt skipulag sé unnið á héraðsvísu og ekki séu uppi nein áform um breytingar til þeirrar áttar að færa hringveginn frá Blönduósi. Bæjarráð Blönduóss mótmælir því harðlega að framkvæmdin skuli sett á samgönguáætlun þvert á gildandi skipulag, án samráðs og í andstöðu við sveitarfélög á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert