SA segir atkvæðagreiðslu í Hafnarfirði umhugsunarefni

Samtök atvinnulífsins segja niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar í Hafnarfirði hljóti að verða umhugsunarefni öllum þeim sem hafi í hyggju að efna til uppbyggingar nýs reksturs eða umfangsmikillar stækkunar á núverandi rekstri. Nauðsynlegt sé að tryggja áður en haldið sé af stað í undirbúning einstakra verkefna, sem miklum fjármunum sé varið í, að ljóst sé hvernig viðkomandi sveitarfélag muni fjalla um málið og hvernig afgreiðslu þess sé háttað.

SA bendir á á vef sínum að það sé atvinnulífinu afar mikilvægt að allar leikreglur sem um það gilda séu einfaldar, skýrar og gegnsæjar. Forsenda uppbyggingar og framþróunar sé stöðugleiki í efnahagslífi og stjórnarfari þannig að ekki sé breytt um leikreglur á miðri leið. „Á undanförnum árum hefur mikið áunnist í því að gera umhverfi atvinnulífsins hér á landi sambærilegt við það sem best gerist í nálægum löndum, m.a. í þeim tilgangi að erlendir aðilar sem hér vilja festa fé sitt og ráðast í atvinnuuppbyggingu viti að hverju þeir gangi. Beinar erlendar fjárfestingar á Íslandi hafa þó verið hverfandi undanfarin ár, að undanskildum fjárfestingum á áliðnaði,“ segir á vef SA.

SA fjallar um undirbúning stækkunar álversins í Straumsvík og að hann hafi farið fram í trausti þess að gildandi reglur héldu og yrði ekki breytt. „Áformuð stækkun fór lögum samkvæmt í gegnum mat á umhverfisáhrifum og stóðst það próf. Sótt var um leyfi hjá umhverfisyfirvöldum sem auglýstu tillögu að starfsleyfi og veittu síðan. Almenningi, sveitarfélaginu og öðrum gafst færi á að koma athugasemdum sínum á framfæri við mat á umhverfisáhrifum og tillögu að starfsleyfi. Þá var óskað eftir kaupum á lóð á svæði sem skipulagt var undir atvinnustarfsemi og seldi bæjarfélagið Alcan lóð. Eftir margra ára undirbúnings- og hönnunarvinnu var öllu þessu kippt til baka með ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um að ekki yrði veitt leyfi fyrir stækkun nema að fengnu samþykki í almennri atkvæðagreiðslu bæjarbúa sem eins og kunnugt er fékkst ekki,“ segir á vef SA.

Vefur Samtaka atvinnulífsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert