Danól segir 73 vöruliði af um 700 hafa hækkað en 103 lækkað

Innflutningsfyrirtækið Danól segir, að af um 700 vöruliðum sem fyrirtækið selji í matvöruverslanir hafi 73 vöruliðir hækkað frá því í október 2006.  Á sama tíma hafi 103 vöruliðir lækkað í verði um allt að  16% en rúmlega 600 vöruliðir séu óbreyttir á umræddu tímabili. 

Fram kom á heimasíðu Neytendasamtakanna í dag, að Danól hefði boðað hækkun á nokkrum vöruliðum um næstu mánaðamót. Danól segir í athugasemd, að af þeim 27 vöruliðum sem áformað sé að hækka þann 1. maí n.k. hækki 14 vöruliðir um 6%, 12 vöruliðir hækka um 9% og 1 vöruliður um 15%. Fyrirtækið hafi hins vegar tekið á sig margar erlendar verðhækkanir ásamt því að á s.l. 12 mánuðum hafi allir kostnaðarliðir innanlands hækkað, t.d. launavísitalan um 9,5%, vísitala neysluverðs á sama tíma um 6,8% og flutningskostnaður innanlands um 13%. Þessum hækkunum hafi verið mætt með ýmsum hagræðingaraðgerðum.

Þá segir fyrirtækið, að í byrjun maí 2006 hafi orðið verðbreytingar á kaffi vegna gengislækkunar en þá hafi danska krónan hækkað um rúm 20% frá áramótum. 1. nóvember það ár lækkaði kaffi um 3% vegna gengislækkana.  1. mars 2007 hefði kaffi átt að lækka um 5% vegna vörugjalda en lækkunin á Merrild nam um 6%.  Heimsmarkaðsverð á kaffi hafi frá því í maí til loka árs 2006  hækkað um 25-30%.  Þetta sé nú að skila sér út í verðlagið með 6% hækkun.  Þrátt fyrir það sé verðið 3% lægra en það var í maí 2006.  Á sama tíma hefur breyting á dönsku krónunni verið -0,76% og er tekið tillit til þess í verðbreytingum  okkar.

Þá segir Danól, að útsöluverð á OTA og Havrefras á Íslandi sé í flestum tilfellum lægra en í Danmörku.

Danól tók við Quaker umboðinu 1. febrúar  og segir að gera hafi þurft ákveðnar leiðréttingar á verði sem hafi ekki fylgt verðstefnu erlenda aðilans undanfarin ár. 

Verðið á Íslandi hafi ekki endurspeglað miklar kostnaðarhækkanir sem hafa skilað sér á danska markaðnum. T.d. hafi orðið á milli 10-20% hækkun á hveiti og kornafurðum á síðasta ári, 5-10% hækkun á pakkningum, 2,5-5% launahækkunum, 5-10% hækkun á flutningskostnaði erlendis og mikil hækkun á orkukostnaði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert