Ingibjörg Sólrún: Verðum að standa vörð um jöfnuðinn í íslensku samfélagi

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir setur landsfund Samfylkingarinnar í Egilshöll.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir setur landsfund Samfylkingarinnar í Egilshöll. mbl.is/Árni Sæberg

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði í setningarræðu á landsfundi flokksins í dag, að standa verði vörð um jöfnuðinn í íslensku samfélagi; framtíð lands og framtíð þjóðar væru undir þvi komin. „Við eigum að verða samferða inn í framtíðina því við erum of lítil og of rík fjölskylda til að það sé hægt að sætta sig við að einhver sé skilinn eftir," sagði hún.

Tvö mál eins og fleinn í holdi þjóðarinnar
Ingibjörg Sólrún sagði, að tvö mál á kjörtímabilinu, sem er að líða, væru enn eins og fleinn í holdi þjóðarinnar. Annars vegar væri Íraksmálið, sem hefði verið siðlaus ákvörðun tekin í óðagoti. Samfylkingin hefði þá staðföstu skoðun að það eigi að verða verk nýrrar ríkisstjórnar að taka Ísland út af lista hinna vígfúsu þjóða.

„Hins vegar eftirlaunamálið. Í árslok 2003 var friður rofinn í íslensku samfélagi með lagasetningu sem færði ráðamönnum ríkisins eftirlaun langt umfram það sem almennt gerist. Kæru félagar. Ég var andsnúinn þessu frá upphafi og ég mun beita mér fyrir því að hinum umdeildu lögum verði breytt og meira jafnræði komið á í lífeyrismálum ráðamanna og almennings," sagði Ingibjörg Sólrún.

Þá sagði hún að kjörtímabil mikils óstöðugleika í efnahagsmálum væri einnig að baki. Ekkert benti til þess að ríkisstjórnarflokkarnir hafi nokkur áform uppi um að slá á þensluna í hagkerfinu heldur stefndu þeir ótrauðir áfram að stórfelldum virkjana- og stóriðjuáformum, lofuðu skattalækkunum og útgjaldaloforðin, sem þeir hefðu stráð í kringum sig á undanförnum vikum næmu um 400 milljörðum króna. „Þau loforð hafa ekki verið gefin á landsfundum heldur á þingfundum, hátíðarfundum og blaðamannafundum," sagði Ingibjörg Sólrún.

Úrræðaleysi ríkisstjórnar í velferðarmálum
Formaður Samfylkingarinnar sagði, að flokksmenn væru sammála ýmsu, sem ríkisstjórnin hefði gert. „Hún hefur fylgt eftir frumkvæði jafnaðarmanna um opnun landsins með aðildinni að innri markaði Evrópu, hún hefur skapað viðskiptalífinu sveigjanlegra umhverfi og leyst þar ýmsa krafta úr læðingi. En hún hefur vanrækt aðkallandi verkefni af því hún hefur ekki séð þau. Það er ekki vítt útsýnið af sjónarhóli hægri stefnunnar.

Vitnisburðurinn um algert úrræðaleysi ríkisstjórnarinar í velferðarmálum blasir hvartvetna við okkur. Barnabætur voru skornar niður árum saman og svo hart er keyrt í tekjutengingum að þær byrja að skerðast við 95 þúsund króna tekjur hjá einstæðri móður. Skattleysismörk hafa lækkað og skattbyrði lífeyrisþega og láglaunafólks þyngst. Vaxtabætur hafa ekki haldið í við hækkandi fasteignaverð, lífeyrir Tryggingarstofnunar hefur ekki fylgt almennri launaþróun og lífeyrisþegar dregist aftur úr öðrum í kjörum. 60% aldraðra eru með tekjur undir 140 þúsund á mánuði og 5300 börn í landinu búa við fátækt.

Sárast er að verða vitni að því að almannatryggingarnar, sem var stofnað til fyrir 70 árum af íslenskum jafnaðarmönnum, standa ekki lengur undir nafni. Þær hafa verið gerðar að skrifræðisbákni sem er almenningi oftar en ekki til angurs og ama. Það verður okkar verkefni að endurreisa þær, gera þær aftur að almannatryggingum," sagði Ingibjörg Sólrún m.a.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert