Varmársamtökin boða íbúaþing

Varmársamtökin blása til íbúaþings þar sem kynntar verða tillögur að nýrri leið til og frá Helgafellshverfi að Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ. Yfirskrift þingsins sem haldið verður í Þrúðvangi í Álafosskvos laugardaginn 21. apríl kl. 14 er: Heildarsýn: Mosfellsbær-Vesturlandsvegur.

Markmið þingsins er að ýta undir opna umræðu milli íbúa bæjarfélagsins við embættismenn ríkis og bæjar og frambjóðendur Suðvesturkjördæmis um samgöngu- og skipulagsmál í Mosfellsbæ.

Í brennidepli fundarins er erindi Ólafar Guðnýjar Valdimarsdóttur, arkitekts um skipulagsvinnu og aðkomu almennings að gerð skipulagstillagna. Í kjölfarið kynna Varmársamtökin tillögur að nýrri leið til og frá Helgafellshverfi að Vesturlandsvegi sem unnar hafa verið á þrívíðan grunn undir handleiðslu umferðarsérfræðinga.

Eftir hlé verða pallborðsumræður sem frambjóðendum og fulltrúum stjórnmálaflokkanna í Suðvesturkjördæmi hefur verið boðið að taka þátt í og eru fundargestir hvattir til að taka þátt í umræðum og koma hugðarefnum sínum á framfæri við núverandi og tilvonandi fulltrúa þjóðarinnar.

Dagskrá fundarins: Erindi Ólafar Guðnýjar Valdimarsdóttur, arkitekts um skipulagsmál. Kynning Varmársamtakanna á teikningum af nýjum vegtengingum til og frá Helgafellshverfi að Vesturlandsvegi. Hlé: Kaff'o með'í. Pallborðumræður og fyrirspurnir.

Varmársamtökin telja að fyrirkomulag umferðar í og í gegnum Mosfellsbæ sé mikið hagsmunamál fyrir íbúa sem eingöngu verði leyst með opnum skoðanaskiptum hlutaðeigandi aðila, þ.e. íbúa, stjórnmálamanna og fagaðila. Mosfellsbær stendur frammi fyrir þeim vanda að þjóðbrautin klýfur bæjarfélagið í tvennt. Innanbæjarumferð er samofin umferð um þjóðveginn sem leiðir til þess að náið samstarf þarf milli bæjaryfirvalda og Vegagerðar ríkisins við gerð skipulagsáætlana. Þegar deiliskipulag tengibrautar úr Helgafellshverfi um Álafosskvos að Vesturlandsvegi er skoðað kemur í ljóst að skipulagið tekur harla lítið mið af aðstæðum við Vesturlandsveg. Vandann sem þarna skapast teljum við að hægt sé að leysa með öðrum úrræðum sem samtökin bjóða áhugasömum að kynna sér og ræða á þinginu í Þrúðvangi á laugardag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert