Draga þarf úr lyfjanotkun barna og bæta réttindi vinnandi foreldra

Þriðja hvert barn á Íslandi fær nú rör í eyru.
Þriðja hvert barn á Íslandi fær nú rör í eyru. mbl.is/Þorkell

Auka þarf áherslu á fræðslu til lækna og foreldra um það hvenær bíða megi með sýklalyfjameðferð við miðeyrnabólgum barna. Þá þarf að bæta félagsleg réttindi vinnandi foreldra til að geta verið heima hjá veikum börnum og aðgengi að þjónustu samdægurs fyrir börn í heilsugæslunni. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum fimmtán ára gæðaþróunarverkefnis Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Fram kemur í fréttatilkynningu aðstandenda verkefnisins að algengasta heilsufarsvandamál barna á Íslandi í dag sé tengt miðeyrnabólgum og þriðja hvert barn hér á landi fái hljóðhimnurör. Þá sé sýklalyfjanotkun barna sé mjög mikil og það veki athygli að flest börn fái heilbrigðisþjónustu á skyndivöktum en ekki hjá föstum lækni.

Yfirlýsing fer í heild sinni hér á eftir:
Sýklalyfjaónæmi er vaxandi vandamál í heiminum í dag og hefur Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin (WHO) skilgreint vandann sem eina af mestu heilbrigðisógnum framtíðar. Sýklalyfjaónæmi hefur verið mest í þeim löndum sem nota mest af sýklalyfjum en ávísun á sýklalyf er talin ónauðsynleg í allt að helmingi tilfella. Sýklalyfjanotkun Íslendinga, sérstaklega meðal barna er meiri en þekkist á hinum Norðurlöndunum og fjölgun sýklalyfjaónæmra pneumókokka á Íslandi hefur vakið heimsathygli. Einnig hefur vakið athygli mikil notkun hljóðhimnuröra á Íslandi þar sem um þriðja hvert barn fær rör. Bent hefur verið á að þróunin á Íslandi geti verið öðrum löndum lærdómsrík og "víti til varnaðar" en eyrnabólgur eru algengasta orsök komu barna til lækna í hinum vestræna heimi og algengasta ástæða ávísunar á sýklalyf. Rannsóknir sem gerðar voru hér á landi á árunum 1993-2003 sýndu fram á tengsl sýklalyfjanotkunar barna og útbreiðslu sýklalyfjaónæmra pneumókokka og eins hvernig mikil sýklalyfjanotkun getur hugsanlega leitt til tíðari sýkinga meðal barna og þá sérstaklega miðeyrnabólgu og þörf á hljóðhimnuröraísetningum síðar. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að ekki þarf að meðhöndla vægar miðeyrnabólgur með sýklalyfjum nema hjá yngstu börnunum. Frekar er mælt með að fylgja málum eftir og endurmeta þörf á sýklalyfjameðferð síðar ef þörf krefur. Íslensku rannsóknirnar sýna að þriðja hvert barn, ber fyrstu vikurnar eftir hverja sýklalyfjameðferð, sýklalyfjaónæman pneumókokk sem smitast auðveldlega milli barna. Þetta veldur því að ekki er hægt að meðhöndla sýkingar sem þessar sýklalyfjaónæmu bakteríur valda á öruggan hátt með venjulegum sýklalyfjum. Börn þurfa þá að leggjast inn á sjúkrahús til sértækrar sýklalyfjameðferðar í æð. Hætt er við að þessi þróun sé fyrirboði miklu stærra vandamáls á komandi árum, sérstaklega ef ekkert verður að gert til að draga úr óþarfa notkun sýklalyfja hér á landi. Sýklalyfjanotkunin hefur samt aukist um 16% að meðaltali á hvert mannsbarn á aðeins tveggja ára tímabili sem síðustu sölutölur ná yfir 2003-2005. Tímaskortur foreldra og mikið vinnuálag er líklegasta skýringin á mikilli notkun sýklalyfja hér á landi og foreldrar sækja í auknum mæli eftir læknisþjónustu á skyndivöktum eftir vinnu þar sem áhersla er lögð á að leysa strax úr vandamálunum, oft með lyfjagjöf. Tryggja þarf foreldrum aðgang að nauðsynlegri læknishjálp fyrir börnin að degi til, þar sem boðið er upp á eftirfylgd. Leggja þarf meiri áherslu á fræðslu fyrir foreldra í heilsugæslunni. Frítökuréttur foreldra frá vinnu vegna veikra barna þarf að vera betur tryggður en hann er í dag til að auðvelda foreldrum að vera heima með veikum börnum sínum. Þá yrði smithætta minni og vonandi minni þrýstingur á ávísun sýklalyfs af minnsta tilefni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert