Unnið að stækkun fangelsis á Kvíabryggju

mbl.is/Ómar

Framkvæmdir vegna stækkunar fangelsisins Kvíabryggju standa nú yfir og undirbúningur vegna byggingar nýs fangelsis á Akureyri er hafinn. Þá er hafin hönnunarvinna vegna breytinga og stækkunar fangelsisins á Litla-Hrauni og unnið er að þarfagreiningu vegna nýs fangelsis á höfuðborgarsvæðinu í samvinnu við danska sérfræðinga.

Áformað er að ljúka framkvæmdum á Kvíabryggju í september nk. og fjölgar þá plássum þar úr 14 í 22. Í vefriti dómsmálaráðuneytisins er haft eftir Valtý Stefánssyni, fangelsismálastjóra, að mikil áhersla hafi verið lögð á það af hálfu Fangelismálastofnunar, að fjölga fangaplássum við opnar aðstæður svo sem er á Kvíabryggju. Þá muni vinnuaðstaða fangavarða verða betri auk þess sem aðstaða verður bætt til að stunda framhaldsnám á staðnum.

Fangelsið á Akureyri verður algerlega endurbyggt og eru framkvæmdir að hefjast. Fangarými verða tíu en þau eru nú átta. Í fangelsinu verður kennsluaðstaða, aðstaða fyrir létta vinnu og líkamsræktarsalur. Þá verður komið upp heimsóknaraðstöðu sem ekki var þar til staðar og útisvæði stækkað. Framkvæmdum á að ljúka vorið 2008.

Þá er unnið að heildaruppbyggingu fangelsisins á Litla-Hrauni og er hönnunarvinna í fullum gangi. Gert er ráð fyrir að fangelsið verði mikið endurbætt og stækkað nokkuð. Vinnuaðstaða fanga verður aukin og bætt með stækkun á núverandi vinnuskálum. Í frumathugun var gert ráð fyrir að komið yrði upp kvennadeild með sex fangarýmum og sérstakri deild með allt að 12 fangarýmum fyrir fanga sem þurfa lágmarksgæslu.

Gæsluvarðhaldsfangelsi með einangrun verður ekki í almennum rekstri á Litla-Hrauni eftir að nýtt fangelsi hefur risið á höfuðborgarsvæðinu en gert er ráð fyrir að fangar í lausagæslu vistist í fangelsinu. Eftir breytingarnar verða 83 fangarými í Fangelsinu Litla-Hrauni, sex fleiri en nú, þegar gæsluvarðhaldshlutinn er undanskilinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert