Hermaður sektaður og dæmdur til þrælkunarvinnu

Bandarískur hermaður, sem í vikunni var sýknaður af ákæru fyrir morð á tvítugri stúlku á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli, var dæmdur í 90 daga þrælkunarvinnu, tæplega 2800 dala sekt og lækkaður í tign fyrir að stela peningum af stúlkunni.

Hermaðurinn, sem heitir Calvin Hill, var fundinn sekur um þjófnað, gefa rangan framburð, fyrir að vera fjarverandi án leyfis og rangar sakargiftir. Hann játaði allar þessar sakir á sig áður en réttarhöld hófust yfir honum fyrir herrétti í herstöð í Washingtonborg í Bandaríkjunum.

Að sögn fréttaþjónustu Bandaríkjahers verður Hill, sem er 21 árs frá Warren í Ohio, ekki vikið úr flughernum.

Hill hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í ágúst 2005 eftir að Ashley Turner fannst með mikla höfuð- og hálsáverka í íbúðaskála á Keflavíkurflugvelli. Turner lést af sárum sínum og grunur beindist að Hill, sem hafði verið ákærður fyrir að stela peningum úr hraðbanka með því að nota greiðslukort Turners.

Kviðdómur komst að þeirri niðurstöðu, að ekki væru nægar sannanir fyrir hendi til að sakfella Hill og rannsókn málsins hefði verið ábótavant.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert