Jón Sigurðsson segir af sér formennsku

Jón Sigurðsson.
Jón Sigurðsson. mbl.is/Brynjar Gauti

Jón Sigurðsson hefur sagt af sér formennsku í Framsóknarflokknum. Hann hefur sett kveðju til flokksmanna á vefsíðu Framsóknarflokksins þar sem segir, að við núverandi aðstæður sé óhjákvæmilegt að formaður Framsóknarflokksins hafi aðgang að ræðustól Alþingis. Jón segir, að það sé lykill að kröftugu starfi og einingu innan flokksins.

Jón segir eðlilegt að Guðni Ágústsson, varaformaður, taki við formennsku flokksins en hann muni áfram aðstoða við uppbyggingu og starf. Mun Guðni nú taka við sem leiðtogi og aðaltalsmaður flokksins.

Í tilkynningu sinni segir Jón að hann hafi ekki náð kjöri í alþingiskosningunum 12. maí sl. og í kjölfarið tekið þá ákvörðun að segja af sér formennsku í Framsóknarflokknum. Hann hafi undanfarna daga kynnt þessa ákvörðun öðrum forystumönnum flokksins og trúnaðarmönnum í kjördæmi sínu.

Jón sagði á blaðamannafundi í morgun, að biðin hafi verið óhjákvæmileg og endanleg ákvörðun ekki verið mótuð fyrr en síðdegis í gær.

Nýrri ríkisstjórn lýsir Jón sem hægrisinnaðri nýfrjálshyggjustjórn, aðspurður um það hvort hann vildi útskýra þess skilgreiningu frekar sagðist hann ekki vilja það þar sem málefnasamningur stjórnarinnar hefði ekki verið birtur, en sagðist hafa góðar ástæður fyrir þessum ummælum sínum. Guðni Ágústsson tók undir þessi orð.

Jón sagðist ekki líta svo á að fylgi flokksins hefði hrunið þótt það hafi minnkað frá síðustu kosningum, fylgið hafi verið meira en kannanir sýndu mánuðina fyrir kosningar og svipað og í borgarstjórnarkosningunum á síðasta ári. Sagðist Jón frekar líta svo á að flokkurinn hefði haldið sjó. Hann sagðist þó ekki gera lítið úr sinni ábyrgð á útkomu flokksins í nýafstöðnum kosningum en að ljóst væri að fólk vildi breytingar eftir langt og farsælt stjórnarsamstarf.

Jón sagðist alls ekki sjá eftir þeirri ákvörðun sinni að taka við flokknum, honum hafi þótt mjög gaman að koma að starfi flokksins eftir hlé þar sem hann sinnti starfi þar sem honum gafst ekki kostur á stjórnmálaþáttöku.

Vefsiða Framsóknarflokksins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert