Óútskýrður launamunur kynjanna 10-12%

Niðurstöður nýrrar rannsóknar Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands á launagreiðslum íslenskra fyrirtækja árið 2006 benda til þess, að munur á föstum mánaðarlaunum karla og kvenna, sem ekki verði skýrður með öðru en kyni sé 10-12%.

Rannsóknin var unnin í samvinnu við ParX viðskiptaráðgjöf IBM og Samtök atvinnulífsins. Samkvæmt upplýsingum frá Samtökum atvinnulífsins voru föst mánaðarlaun kvenna að meðaltali 18% lægri en karla á síðasta ári. Þar af verði 6-8% skýrð með mun á menntun kynjanna, starfi, aldri eða starfsaldri.

Rannsóknin er nákvæmari og mun umfangsmeiri en fyrri kannanir sem gerðar hafa verið hér á landi á launamun kynjanna og byggir á gögnum úr launabókhaldi 102 fyrirtækja sem ná til til ríflega 6300 starfsmanna.

Samtök atvinnulífsins segja, að gögn um ábyrgð starfsmanna, frammistöðu eða fjölskylduaðstæður hafi ekki verið tiltæk en vera kynni að hluta launamunarins megi rekja til þessara þátta. Þess vegna sé ekki hægt að fullyrða að einungis sé um kynbundinn launamun að ræða heldur geti munurinn stafað af mismunandi ábyrgð og frammistöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert