Fleiri bætast í göngu gegn bílslysum

Hópur hjúkrunarfræðinga, sjúkraflutningamenn og slökkviliðsmenn munu á morgun ganga milli tveggja sjúkrahúsa í Reykjavík í því skyni að vekja fólk til vitundar um alvarleg umferðarslys sem verða á sumrin. Að sögn Bríetar Birgisdóttur hjúkrunarfræðings hefur fólk sýnt mikla samstöðu en eftir að frétt um gönguna birtist í Morgunblaðinu á föstudaginn höfðu hjúkrunarfræðingar á Akureyri samband og er nú verið að skipuleggja göngu þar. Einnig munu sjúkraflutningamenn frá Selfossi keyra í sjúkrabíl í göngunni í Reykjavík með starfsmann Rannsóknarnefndar umferðarslysa innanborðs.

Magnús Pétursson, forstjóri Landspítala – háskólasjúkrahúss, fagnar þessu framtaki og hvetur starfsmenn til að taka þátt í því. Hann ætlar sjálfur að ganga þrátt fyrir að vera fótbrotinn og þurfa að styðjast við hækjur. "Ég held að þetta sýni það að starfsmönnum ofbýður þessi mikli fjöldi slysa," segir Magnús. "Mér finnst það afar lofsvert hjá starfsmönnum að taka þetta upp."

Mun tvímælalaust skila árangri

Einar Magnús Magnússon hjá Umferðarstofu segir göngur sem slíkar og alla almenna umræðu um alvarlegar afleiðingar áhættuhegðunar í umferðinni tvímælalaust skila árangri. "Þau eiga mikið hrós skilið fyrir að gera þetta. Þetta fólk kemur að og upplifir oft skelfilegustu afleiðingar umferðarslysa og við höfum fundið fyrir því hjá Umferðarstofu í gegnum tíðina að starfsfólkið tekur þessa hluti skiljanlega mjög nærri sér."

Að sögn Einars Magnúsar er margt sem bendir til þess að fleiri alvarleg slys hafi átti sér stað það sem af er þessu ári heldur en í fyrra. Hann segir að lokum: "Þótt það séu einstaka einstaklingar sem láta sér ekki segjast megum við ekki gefast upp og segja að þetta skili engum árangri því það verður því miður alltaf til fólk sem lætur sér ekki segjast."

Bríet segir gönguna góða leið til að losa um tilfinningar. Mjög erfitt sé t.d. fyrir sjúkraflutningamenn og lögregluþjóna að koma að alvarlegum umferðarslysum og eins sé erfitt fyrir þá sem vinni inni á stofnunum að mega ekki tjá sig um nein einstök tilfelli. Starfsfólk sé í raun oft lokað inni með miklar tilfinningar sem tengist þessu. "Okkur finnst þetta vera ein leið til þess að sjást og heyrast án þess að þurfa að taka fyrir eitt tilfelli heldur minnast þeirra allra. Þarna sést fólkið sem þarf að takast á við þetta frá degi til dags."

Í Reykjavík verður haldið af stað frá sjúkrabílamóttöku Landspítalans við Hringbraut klukkan 17. Gengið verður fram hjá Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð og endað við þyrlupall LSH í Fossvogi. Á Akureyri mun gangan hefjast á sama tíma við þyrlupall við FSA. Gengið verður niður Þórunnarstræti, suður Glerárgötu og endað á torginu þar sem Guðrún Eggertsdóttir sjúkrahúsprestur heldur stutta tölu. Að lokum verður 31 blöðru sleppt á báðum stöðum til minningar um þá sem létu lífið í umferðinni í fyrra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert