Á Vestfjörðum er mest hægt að gera í byggðamálum

Halldór Halldórsson bæjarstjóri á Ísafirði
Halldór Halldórsson bæjarstjóri á Ísafirði

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, er ekki sammála mati Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands að á Vestfjörðum sé minnsti möguleikinn á mótvægisaðgerðum til að sporna við samdrætti í atvinnulífi vegna niðurskurðar í þorskveiðum. „Ég er ekki búinn að kynna mér skýrsluna en hef heyrt um hana fjallað í fjölmiðlum. Ég segi að það fari algjörlega eftir vilja ráðamanna hvað sé hægt að gera. Það má líka snúa fullyrðingu hagfræðinganna við og segja að hér sé mest hægt að gera“, segir Halldór.

Hann segir að eitt af því sem hægt er að gera er að virkja allar hugmyndir sem komu fram í Vestfjarðaskýrslunni. „Ég hef vissu fyrir því að ríkisstjórnin er að ræða hvað hægt er að gera til að hjálpa þeim byggðalögum sem mest eru háð þorskveiðum,“ að því er fram kemur á fréttavef Bæjarins besta.

Ráðamönnum er tamt að segja að bættar samgöngur og betri fjarskipti séu lausn byggðalaga í vanda. Halldór segir þessi tvö atriði vissulega vera mikilvæg en það sem vanti fyrst og fremst í Ísafjarðarbæ séu nýjar atvinnugreinar. „Fyrst að nágrannalöndum okkar hefur tekist að byggja upp öflugt atvinnulíf á landsbyggðinni þá getum við það líka.“

Mál málanna á Vestfjörðum er olíuhreinsistöðin og segist Halldór óttast að of mikið verði litið til hennar. „Það á mikið vatn eftir að renna til sjávar áður en nokkuð er hægt að ákveða varðandi olíuhreinsistöðina. Við vitum í raun ekkert hvort og hvenær hún verður reist og mjög langt er í land“, segir Halldór Halldórsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert